Kosningarnar um aðild Bretlands að Evrópusambandinu (ESB), og niðurstaðan um að Bretar muni yfirgefa sambandið, sýna glögglega átakalínurnar í alþjóðastjórnmálunum þessi misserin. Einfalt á litið, má segja að baráttan snúist meðal annars um hvort þjóðir eigi að treysta á mikið og ríkt samstarf, eða standa á eigin fótum og reyna að reka stjórnmálastefnu sem stjórnast af sérhagsmunum hvers ríkis.
Deilur um innflytjendamál tengjast þessum spurningum, þar sem beinlínis er fullyrt oft á tíðum, að innflytjendur séu að stela störfum frá heimamönnum.
Þó ekkert styðji slíkt tal, þegar tölurnar eru skoðaðar, þá verður að segjast alveg eins og er, að þessi sýnilegu átök eru alvarleg. Stjórnmálamenn hafa vonandi þroska til að fjalla um þessi mál yfirvegað í framtíðinni, en því miður er kosningabaráttan fyrir Brexit-kosningarnar ekki dæmi um málefnalega baráttu.
Og ekki er hægt að segja heldur, að fordómarnir í Donald J. Trump, sem vill verða fulltrúi Repúblikana í kosningunum í Bandaríkjunum, séu til þess fallnir að efla trú á pólitísku rökræðunni og samvinnu yfirleitt. Frasarnir flæða, algjörlega innistæðulausir.
Sögulegir tímar virðast í uppsiglingu í alþjóðastjórnmálum þar sem margt getur breyst, og valdaþræðirnir lent í nýjum höndum. Forvitnilegt verður að fylgjast með framhaldinu.