Í dag er kosningadagur, og verður nýr forseti þjóðarinnar kosinn. Framkvæmd lýðræðisins með kosningum er í senn falleg og mikilvæg athöfn, og verður spennandi að sjá hver það verður sem sigrar í kosningunum, og tekur við af Ólafi Ragnari Grímssyni, sem verið hefur forseti Íslands í 20 ár. Vonandi verður kosningaþátttaka góð.
Guðni Th. Jóhannesson hefur mælst með langsamlega mesta fylgið í kosningum, en ekkert er öruggt fyrr en öll atkvæðin hafa verið talin. Kosningabaráttan hefur verið snörp, og tekist á um margt í henni, eins og gengur. Heilt yfir hefur hún verið málefnaleg, að mestu leyti, held ég að sé óhætt að segja.
Ritstjórn Kjarnans hefur lagt sig fram um að fjalla um kosningarnar með vönduðum hætti, og birta greinar frambjóðenda og annarra, sem hafa eitthvað til málanna að leggja.
Gleðilegan kjördag kæru landsmenn, og njótið dagsins!