Orkuiðnaður á Íslandi er á svipuðum stað í dag og sjávarútvegurinn var í kringum innleiðingu kvótakerfisins. Aðgangur að orkuauðlindinni er takmarkaður og útfluttar orkuafurðir eru fyrst og fremst hrávara í formi áls.
Tækniframfarir, nýsköpun og fjárfestingar hafa aukið verðmæti íslensks sjávarfangs margfalt frá því að kvótakerfinu var komið á. Engum dylst það. Hvers kyns þjónustufyrirtæki hafa sprottið upp við geirann og eru jafnvel eftirsótt erlendis frá vegna sérþekkingar sinnar. Sama ferli er nú í gangi innan orkuiðnaðarins þar sem eftirspurn eftir íslenskri raforku er mikil en framboðið ekki endalaust. Á næstu árum má búast við að fjöldi nýrra fyrirtækja sem starfa í eða þjónusta orkugeirann verði stofnuð með aukna framleiðni og nýtni íslenskrar orku að markmiði.
Mikilvægt að selja sömu vöru aftur og aftur
Þróun vara sem eru endurseljanlegar er að jafnaði betra en að selja bara útselda tíma af vinnu. Tekjurnar eru skalanlegar, þ.e.a.s. ekki þarf að kosta jafn miklu til við að afhenda nýjasta selda eintakið og hið fyrsta. Stöðlun og formfesting hátækniþekkingar er flókið fyrirbæri og kostnaðarsamt en skilar margföldum ávinningi á við útselda vinnu. Verndun hugverkaréttinda í formi einkaleyfa er svo ekki bara mikilvæg heldur gefur hún kost á að selja notendaleyfi til erlendra aðila og þ.a.l. tekjur. Meðvitund íslenskra háskóla, stofnana og fyrirtækja um þróun endurseljanlegra vara í formi búnaðar, hugbúnaðar eða notendaleyfa hefur aukist umtalsvert á síðustu árum en betur má ef duga skal. Með ofangreind atriði til hliðsjónar er líklega ekki slæm hugmynd að stofna fyrirtæki í orkugeiranum í dag.
Startup Energy Reykjavík flýtir þroskaferli fyrirtækja
Startup Energy Reykjavik (SER) viðskiptahraðallinn hefur nú verið haldinn tvisvar sinnum og liðsinnt fjórtán fyrirtækjum með einkar góðum árangri. Grunnhugmyndin þar er einföld: Að veita fyrirtækjum í orkutengdum iðnaði brautargengi með sprotafjármagni og umtalsverðri handleiðslu. Að aðstoða fyrirtækin við að gera meira hraðar og flýta þannig þroskaferli þeirra. SER er tilvalið tækifæri fyrir rótgróin fyrirtæki að vinna að hugmyndum sem ekki hefur verið sinnt nægilega vel hingað til sem og fyrir ný fyrirtæki sem sjá tækifæri í vaxtaskeiði íslenska orkugeirans. Þátttaka í SER hefur reynst þátttakendafyrirtækjum vel og vakið bæði athygli á þeim og aukið aðgengi þeirra að fjármagni fyrir áframhaldandi rekstur. Það eru spennandi tímar framundan í íslenska orkugeiranum og ég hvet sem flesta að verða hluti af því áhugaverða breytingaskeiði. Umsókn í Startup Energy Reykjavik gæti verið fyrsta skrefið að taka.