Það hefur ekki farið framhjá neinum hinn stórkostlegi árangur sem íslenska karlalandsliðið hefur náð á síðustu árum og er nú að ná hápunkti sínum í lokakeppni EM í Frakklandi. Strákarnir okkar fylla okkur af óendanlegu stolti og ættjarðarástin ólgar í æðum okkar. Allir hrífast með, jafnt ungir sem aldnir. Það sem gerir gleðina enn skemmtilegri er að nánast allur heimurinn hrífst með okkur, allir standa með „litla Íslandi“ og fögnuðurinn er ósvikinn.
Þetta stórkostlega ævintýri sem á sér stað niður í Frakklandi hefur sýnt okkur hvers við erum megnugir Íslendingar, okkur eru hreinlega allir vegir færir ef við stöndum saman. Við stöndum saman, gleðjumst saman, við föðmum hvert annað, elskum hvert annað, við elskum landsliðið okkar og síðast en ekki síst elskum við landið okkar. Við Íslendingar höfum öll alist upp, lifað og hrærst í nánum tengslum við landið okkar og það hefur gert það að verkum að ást okkar á landinu er innbyggð, ósjálfráð og ómeðvituð. Þessi ættjarðarást okkar brýst svo út í sinni tærustu mynd þegar okkar frábæra íþróttafólk vinnur stóra sigra á keppnisvöllum heimsins.
Þá hefur ekki síður vakið athygli umheimsins framganga áhangenda íslenska liðsins sem allstaðar hafa sýnt af sér prúðmennsku og kurteisi alveg laus við hroka og yfirlæti. Gleymum því aldrei að sönn ættjarðarást á ekkert skylt við rembing og þjóðernishroka. Það er ekki ættjarðarást að finna til þarfar til að upphefja sjálfan sig og landið sitt með því að gera lítið úr öðrum, öðru fólki, öðrum löndum eða annarri menningu.
Já það hefur svo sannarlega verið gaman að vera Íslendingur síðustu vikur og finna þann meðbyr sem við höfum og sjá gleðina og stoltið skína út úr hverju andliti. En því miður er ekki hægt að segja að það sé gleði og hamingja hjá öllum hér á landi. Þar vísa ég til þeirra hælisleitenda sem hingað hafa leitað eftir skjóli og friði á undanförnum árum. Það eru alltaf einhverjir einstaklingar sem fá landvistarleyfi hér á landi á hverju ári en á sama tíma er miklu stærri hóp vísað frá landinu þar sem að þeir einstaklingar uppfylla ekki þau skilyrði sem sett eru. Gott og vel, okkur ber að fara að lögum en stundum er hægt að líta á málin öðrum augum.
Augum kærleika, augum mannúðar.
Það hefur verið þyngra en tárum taki að þurfa að horfa á eftir því fólki sem vísað hefur verið úr landi hér að undanförnu. Fólki sem hefur dvalist hér mánuðum og árum saman og beðið eftir að fá niðurstöðu í sín mál. Fólki sem hefur aðlagast og eignast vini og hefur jafnvel verið komið í vinnu. Þessi atburðarás er ótrúlega sorgleg, og mjög erfitt að átta sig á hvað er í gangi í því kerfi sem tekur á hælisleitendum og öðrum sem sækja hér skjól. Það er óskiljanlegt að vísa fólki frá landinu sem jafnvel bíður eftir málsmeðferð innan íslenska kerfisins, senda þau út í algera óvissu með allri þeirri andlegu vanlíðan sem því fylgir.
Og kannski er það ótrúlegast í þessum málum öllum að á sama tíma og við sendum þetta vesalings fólk úr landi sem hefur dvalið hér og aðlagast íslensku samfélagi þá flytjum við inn heilu flugvélafarmana af erlendu vinnuafli. Vinnuafli sem sér um að vinna erfið og illa launuð störf í samfélaginu. Og ef allar áætlanir og spár ganga eftir hvað varðar uppbyggingu á atvinnumarkaði á næstu árum mun vanta þúsundir til þess að manna þessi störf.
Miklar vonir eru bundar við ný lög um útlendinga og með þeim verði allt skipulag sem snýr að móttöku útlendinga sanngjarnar og skilvirkara. Við verðum að geta komið í veg fyrir atburð eins og átti sér stað í Laugarneskirkju í vikunni.
Gefum þessu fólki möguleika á að hefja hér nýtt líf, möguleika á að byggja sér framtíð hér. Flestir þessara einstaklinga er að flýja ömurlegar aðstæður heima fyrir, aðstæður sem eru okkur Íslendingum svo framandi. Eina sem þetta fólk þráir er að að fá að lifa í friði, fá að mennta sig og börnin sín. Gefum þessu fólki möguleika á að verða Íslendingar, gefum þeim von um betra líf, gefum þeim trú á framtíðina og umvefjum þau umhyggju og kærleik. Leyfum þeim að vera þátttakendur í sigrum okkar og ósigrum, gleði jafnt sem sorg.
Áfram Ísland fyrir alla.
höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.