Stærstu pólitísku tíðindi gærdagsins voru þau að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, ætlar ekki að bjóða sig fram í komandi þingkosningum. Þess í stað ætlar hann sér að einbeita sér að innra starfi flokksins á næsta kjörtímabili og byggja brú milli hans og þingflokks Pírata, sem séu mjög ólíkar stofnanir. Helgi Hrafn ætlar svo að bjóða sig aftur fram árið 2020, eða fyrr en kosningar verða haldnar til að koma stjórnarskrárbreytingum í gegn.
Ákvörðun Helga Hrafns er afar óvenjuleg í íslenskri pólitík. Hann hefur notið mikilla persónuvinsælda og er stór ástæða þess að fylgi Pírata hefur farið úr 5,1 prósenti í síðustu kosningum í 28,3 prósent í dag. Ef flokkur hans heldur því mikla fylgi sem hann er með þá er ljóst að Píratar halda að lyklinum að næstu stjórnarmyndun og Helgi Hrafn, sem vinsælasti þingmaður hans, hefði getað valið sér ráðherrastól.
Margir hafa gert að því skóna að Helgi Hrafn muni snúa aftur sem utanþingsráðherra ef Píratar verða í ríkisstjórn, enda yfirlýst stefna flokks hans að ráðherrar sitji ekki á þingi. Miðað við skoðun Helga Hrafns á ráðherrastóli og valdi yfir höfuð, sem hann lýsti í viðtali við Kjarnann í febrúar síðastliðnum, verður það að teljast ólíklegt hlutskipti. Þar sagði Helgi. „Mig langar ekkert að verða ráðherra. Ég vil ekki einu sinni verða óbreyttur þingmaður[...]Mér finnst fyrirbærið vald svo viðurstyggilegt að ég vil helst ekki hafa það í mínu lífi. Vald er ógeð. Vald er viðbjóður.“