Vöxturinn í ferðaþjónustunni heldur áfram. Nýjar tölur frá Hagstofunni, sem birtar voru í gær, sýna að gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgaði um 29 prósent í maí, miðað við sama mánuð í fyrra.
Þessar tölur eru nokkurn veginn í takt við flestar spár sérfræðinga, um vöxt ferðaþjónustunnar á þessu ári. En engu að síður eru þær stórmerkilegar. Nýr veruleiki í efnahagslífinu, sem fylgir vexti ferðaþjónustunnar, heldur áfram að teiknast upp og festa rætur.
En ekki má gleyma því, að brugðið getur til beggja vona í ferðaþjónstu eins og öðrum atvinnugreinum. Ýmislegt ófyrirsjáanlegt getur haft áhrif á ákvarðanir fólks, um ráðstöfun frídaga. Núna hefur Portúgal til dæmis notið góðs af því, að mikið hrun hefur orðið í ferðaþjónustu á mörgum svæðum í Tyrklandi, Túnis og Egyptalandi, og er hryðjuverkum meðal annars kennt um. Fleiri kjósa því að fara til Portúgal.
Nýsköpun í ferðaþjónustu hefur einnig gengið vel þar, og má sérstaklega nefna vínferðir af ýmsu tagi, sem njóta vaxandi vinsælda.
Ísland á vafalítið eftir að fara í gegnum töluvert mikla „vöruþróun“ í ferðaþjónustunni, og þar er hægt að horfa til fyrirmynda erlendis.