Stórkostlegur árangur íslenska landsliðsins í fótbolta hefur lyft þjóðarsálinni og glatt Íslendinga um allan heim. Það er ekki svo langt síðan það var óhugsandi að íslenska karlalandsliðið gæti komist í úrslitakeppni stórmóts, og hvað þá alla leið í 8 liða úrslit.
Með árangrinum hefur íslenskt íþróttalíf náð að feta nýjar brautir, og sýnt fram á það, að lítil þjóð getur náð stórkostlegum árangri með mikilli vinnu, hæfileikum og skipulagi.
Árangurinn er með allra mestu íþróttaafrekum Íslandssögunnar, en lokakeppnir stórmóta í fótbolta eru með stærstu íþróttaviðburðum í heiminum.
Landsliðið er væntanlegt til landsins í dag, og mun koma fram við Arnarhól milli 19:00 og 20:00 í kvöld. Við hvetjum fólk til þess að fjölmenna og þakka fyrir stórkostlega frammistöðu á mótinu.