Atburðurinn í Laugarneskirkju hefur vakið upp blendnar tilfinningar. Ég heyri að hópur fólks hyggist skrá sig úr kirkjunni því þeim finnist sem biskupar og kirkjan tekið afstöðu gegn lögreglunni og með lögbrjótum. Á sama tíma hef ég heyrt frá fólki sem alla jafnan er gagnrýnið á kirkjuna að þarna hafi hún gert eitthvað rétt og aðrir segja að vegna þessa atburðar eigi þau enn samleið með kirkjunni. Tilraun Laugarnessafnaðar til að veita tvem hælisleitendum kirkjugrið leggst sannarlega mis vel í fólk.
Ég þjóna í norsku kirkjunni og í bænum mínum var skammtíma neyðarmóttaka fyrir hælisleitendur frá janúar fram í apríl nú í ár. Fólkið sem dvaldi þar var flest fjölskyldufólk með ung börn og söfnuðurinn fékk að vera með barnastarf á móttökunni til að reyna að glæða hversdaginn þeirra smá lit og lífi. Á móttökunni kynntist ég fólki frá Sýrlandi, Afghanistan og Írak. Þegar hælisleitendur var ekki bara fyrirbæri sem mætti mér í kvöldfréttunum eða á netmiðlunum heldur manneskjur af holdi og blóði sem höfðu deilt sögum sínum með mér varð mér ítrekað hugsað til Gamla testamentis prófessorsins míns við Háskóla Íslands sem hefur gætt þess að guðfræðinemar séu vel að sér í sögu helfarinnar. Ég íhugaði hver ábyrgð okkar væri gagnvart þessu fólki sem hefði misst allt, ætti ekkert heimili til að snúa aftur til og væri hvergi velkomið. Orð rithöfundarins Elie Wiesel sem lifði af dvöl í Auschwitch urðu ljóslifandi fyrir mér: „Andstæða kærleikans er ekki hatur, heldur afskiptaleysi...andstæða trúar er ekki trúvilla, heldur afskiptaleysi og andstæða lífs er ekki dauði, heldur afskiptaleysi”.
Möguleikinn á kirkjugriðum
Fyrir síðustu áramót og fyrstu mánuði þessa árs stórjókst sá fjöldi flóttamanna sem kom til Noregs frá Rússlandi í gegnum landamærastöðina Storskog í Finnmörku. Viðbrögð yfirvalda í Noregi var að senda lang flesta af þeim sem höfðu komið í gegnum Storskog til baka án þess að mál þeirra væri tekið fyrir. Skiljanlega skapaðist mikill ótti meðal þeirra sem höfðu komið þar í gegn. Flestir sem bjuggu í móttökunni í bænum mínum höfðu komið þessa leið og óttinn var áþreifanlegur. Söfnuðurinn okkar fékk fréttir af því að í nokkrum kirkjum fyrir norðan okkur dveldu nú Sýrlenskar fjölskyldur sem óttuðust að vera sendar til baka og ákváðum við því að setja saman aðgerðaáætlun, hvernig við myndum bregðast við ef flóttafólk í bænum okkar leitaði kirkjugriða. Hér í Noregi lifa kirkjugrið enn af hefð þó að þau sé ekki lögbundin. Stjórnmálamenn hafa reynt að fá þau lögð af en lögreglan neitar staðfastlega að fara inn í kirkjur og sækja fólk sem dvelur þar í sátt við sóknarnefnd kirkjunnar.
Það er kannski stóri punkturinn sem mig langar að koma á framfæri. Kirkjugrið eru ekki eitthvað sem fólk getur veitt sjálfum sér og það er ekki svo að hver sem er geti komið sér fyrir í kirkju til að sleppa undan lögreglunni. Það er söfnuðurinn sem tekur ákvörðun um að skjóta skjólshúsi yfir ákveðið fólk í ákveðinn tíma og kirkjugrið eru aldrei hugsuð sem lausn heldur tímabundið úrræði til að hjálpa fólki í neyð.
Í vor hafa kirkjugrið orðið til þess að bjarga hælisleitendum. Prestur sagði mér frá sýrlenskri fjölskyldu sem til stóð að flytja úr landi í byrjun árs þegar Noregur sendi fólk jafn óðum til baka til Rússlands. Þessi fjölskylda hefur fengið mál sitt tekið fyrir núna þegar Rússland hefur lokað landamærunum og hætt að taka við “endursendingum” Noregs. Ef ekki hefði verið fyrir kirkjugrið hefðu þau verið send strax til Rússlands þar sem ekkert beið þeirra annað en meiri óvissa og ótti um framtíð sína og barnanna. Þau fengu tækifæri því að söfnuðinum stóð ekki á sama um þau og skaut yfir þau skjólshúsi í nokkrar vikur.
Afskiptaleysi er verra en hatur
Ég var ekki í Laugarneskirkju og þekki ekki alla söguna á bakvið tilraun safnaðarins til að veita hælisleitendum kirkjugrið. Þar sem ég stend í fjarlægð og fylgist með þykir mér aðgerðin táknrænt og friðsamlegt andóf gegn Dyflinar-reglugerðinni, sem ég fullyrði að standi á siðferðislega vafasömum grundvelli. Það sem mér þykir þó skipta mestu máli er að ungu mennirnir Ali Nasir og Majed, upplifðu í hið minnsta að hér er fólk sem lætur sig þá varða, þeir upplifðu ekki afskiptaleysi. Að vera manneskja er að lifa í tengslum, það er mikilvægt að við finnum að fólki standi ekki á sama um okkur.
Staða kirkjunnar í samfélaginu
Eitt af hlutverkum kirkjunnar í samfélaginu hlýtur að vera að standa vörð um mannhelgi og mannréttindi. Daginn eftir atburðinn í Laugarneskirkju sagði frú Agnes biskup í samtali við Fréttatímann: „Kirkjan hlýtur alltaf að taka afstöðu með fólki í neyð. Þannig er kristin trú í verki og sá kærleikur sem Kristur boðar. Kirkjan hagar sér í samræmi við þann kærleiksboðskap sem hún flytur. Við gerum það ekki einungis með því að stíga í prédikunarstólinn á sunnudögum, heldur standa vörð um mannréttindi fólks hvar svo sem það fæðist.“
Ég tek undir orð Agnesar. Sagan sýnir okkur hversu hættulegt það er þegar við erum afskiptalaus gagnvart náunga okkar, hversu hættulegt það er þegar við teljum lög hafin yfir skynsemi og réttlæti. Ég hef séð kirkjugrið virka, að fólk fái tækifæri á sanngjarni málsmeðferð en sé ekki sent í burtu út í óvissuna og jafnvel sett í lífshættu. Þrátt fyrir að yfirvöld á Íslandi hafi ekki virt kirkjugriðin fullyrði ég að þær miklu tilfinningar sem þau kveiktu þýði að þau hafi samt sem áður haft áhrif.
Ég vona að við höfum hugrekki til að íhuga þessar tilfinningar, setja okkur í spor hælisleytendanna og lögreglumannanna og spyrja okkur hvað hafi sannarlega verið rétt að gera í þessum aðstæðum. Ég get ekki svarað því fyrir þig en þykir við hæfi að enda með orðum Elie Wiesel, sem upplifði myrkustu atburði 20.aldar.
„Við þurfum alltaf að taka afstöðu. Hlutleysi gagnast kúgurunum, en aldrei hinum kúguðu. Þögn uppörvar kvalarann, en aldrei hin kvöldu.”
Sindri Geir Óskarsson guðfræðingur.