Ísland hefur sérstöðu í heiminum vegna hinna miklu endurnýjanlegu orkuauðlinda sem það býr yfir. Orkunýting hér á landi hefur einkennst af því að kaupendum rafmagns er til dæmis boðið að framleiða málma og melmi með hlutfallslega litlu kolefnisfótspori. Krafa samtímans er að auka enn við nýsköpun á þessu sviði.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur um árabil verið vakandi gagnvart nýsköpun á sviði orkunotkunar. Stór áfangi náðist þegar greining okkar leiddi í ljós að orkunotkun við fiskveiðar var svo mikil að þar verði til tonn af kolefnisfótspori við hvert tonn fisks sem landað er. Þetta hefur leitt til nýsköpunar og einkaleyfa á sviði veiða þar sem ljós kemur í stað nets í togveiðibúnaði. Niðurstöður tilrauna sýna svart á hvítu að ljósveiðar geta sparað mikla orku, minnkað kolefnisfótspor verulega og hlíft sjávarbotninum. Samvinna við Hafrannsóknastofnun og fyrirtæki í netagerð og útgerð hefur treyst þennan grunn. Fyrirtækið Optitog ehf hefur verið stofnað um þessa nýsköpun.
Annað svið sem Nýsköpunarmiðstöð hefur einbeitt sér að er tengt stóriðju málma hér á landi og þeirri hugsun að lágmarka fótspor hvers kyns úrgangsefna. Þetta hefur leitt til hugmynda og framkvæmdar á til dæmis notkun afurða álveranna í steinlím, steinull og skyldar afurðir. Talað er um að loka framleiðsluhringnum; að fullnýta efnin sem afurðir. Sprotafyrirtækið Gerosion ehf. varð til, samhliða SER (Start-Up Energy Reykjavík) verkefninu. Þar er framkvæmdastjóri Sunna Wallevík.
Enn eitt atriði sem Nýsköpunarmiðstöð hefur veitt athygli er sú staðreynd að við vinnslu jarðhita verður til mikill glatvarmi. Þetta á sér eðlisfræðilegar ástæður því að nýtni við vinnslu rafmagns úr jarðhita er oft lág og verður lægri eftir því sem hiti varmalindarinnar er lægri.
Í verkefninu Startup Energy var á síðasta ári lögð fram hugmynd sem unnið hefur verið að um framleiðslu rafmagns úr varmalind við mjög lágan hita.
Þar er áskorunin fólgin í orkuframleiðslu með lítilli einingu sem er um eitt kílówatt. Stofnað var til sprotafyrirtækisins XRG Power og er Mjöll Waldorff framkvæmdastjóri. Meðal eigenda er VHE í Hafnarfirði og svo auðvitað SER hópurinn með Landsvirkjun og Arion banka í fararbroddi.
Þannig mætti enn lengi telja. Við hjá Nýsköpunarmiðstöð höfum notið þess að vinna að Start-up Energy verkefnunum og fundið sterklega hvað við eigum mikið erindi í þessa vinnu. Nú á þessum sumardögum höfum við verið að kynna verkefnin á fundum með Landsvirkjun, Íslenska jarðvarmaklasanum og KPMG víða um land.
Við hlökkum til að taka á móti tillögum um nýsköpunarverkefni þegar starfið hefst aftur nú í haust.
Höfundur er prófessor í eðlisfræði og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands; handhafi Global, Alþjóðlegu orkuverðlaunanna.