Íbúðir hafa ekki selst hraðar, frá því í júní 2007, á hápunkti mestu efnahagsbólu sem myndast hefur. Þetta má sjá á nýjum hagvísum Seðlabanka Íslands.
Þá hefur hratt gengið á framboð eigna, sé rýnt í tölurnar. Þannig var framboð af sérbýliseignum á sölu ríflega 900 í apríl 2012, en fjöldinn var kominn niður í 320 í apríl á þessu ári. Sömu sögu er að segja af fjölbýliseignum. Þær voru tæplega 1.900 í apríl 2012 en voru um 900 í apríl síðastliðnum.
Flestar spár benda til þess að fasteignaverð, sem hefur hækkað hratt undanfarin misseri, muni halda áfram að hækka á næstu misserum. Ástæðan er tiltölulega einföld. Það er ekki nægilega mikil framboð af eignum, einkum og sér í lagi litlum og meðalstórum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, til að anna eftirspurn. Ferðaþjónustan setur svo strik í reikninginn, þar sem fjöldi íbúða hefur farið af hefðbundnum eigna- og leigumarkaði og er eingöngu til útleigu fyrir ferðamenn.
Þetta á einkum við um eignir í miðbæ Reykjavíkur.
Erfitt er að sjá annað en að það geti skapast töluvert mikill vandi á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum, vegna þessarar stöðu. Fasteignamarkaðurinn getur orðið yfirspenntur, og fjölmargir gætu lent í því að eiga í miklum erfiðleikum með að finna sér húsnæði.
Þó uppbygging sé komin víða af staða, og áform séu í pípunum, þá er ekki víst að það dugi. Vonandi tekst að hraða uppbyggingu eins og kostur er. Það er mikil þörf á því, að koma á jafnvægi á fasteignamarkaðnum. Hann er mikilvægur í öllum hagkerfum, og ójafnvægi þar getur kallað fram vandamál, eins og dæmin sanna.