Kostnaður við svokölluð jafningjalán fyrirtækisins Aktiva, sem hóf nýverið starfsemi á Íslandi, er ríflega tvöfaldur miðað við dýrustu yfirdráttarlán. Aktiva býður upp neyslulán á bilinu 100 þúsund til 500 þúsund krónur. Þetta kom fram á vef RÚV í gær, og Breki Karlsson, forstöðumaður stofnunar um fjármálalæsi, þar í viðtali.
Orðrétt sagði Breki:
„Ef við skoðum til dæmis venjuleg yfirdráttarlán, hundrað þúsund krónur til 12 mánaða. Hæstu yfirdráttarvextir sem ég fann í fljótu bragði voru 15,5 prósent, þá er árleg hlutfallstala kostnaðar þess láns 14,28 prósent af því að vextirnir eru reiknaðir daglega.
En ef þú tekur þessi jafningjalán sem eru að bjóðast þá eru lægstu vextirnir þar 8,5 prósent en við það bætist umsýslugjald og afgreiðslugjald og ýmislegt. Þannig að mér reiknast til að árleg hlutfallstala kostnaður þeirra, lægstu vaxtanna er 29,87 prósentustig, sem er þá meira en tvöfalt hærri en árleg hlutfallstala kostnaðar.“
Það er mikilvægt að fólk, sem tekur lán hjá fyrirtækjum eins og Aktiva, hugsi sig vel um áður en það gerir það. Helst er best að sleppa því alfarið og safna fyrir hlutunum.