Einhverjar umfangsmestu aðgerðir björgunarsveita á seinni árum fóru fram í Sveinsgili, suður af Landmannalaugum í gær. Hundruð manna leituðu þá að frönskum ferðamanni sem féll ofan í á sem bar hann með sér undir rúmlega 50 metra langa íshellu. Maðurinn fannst í gærkvöldi, rúmum sólarhring eftir að tilkynnt var um slysið, og var hann þá látinn.
RÚV greindi með nákvæmum hætti frá framvindu mála, í þessari aðgerð, sem fór fram við skelfilega erfiðar aðstæður. Frásögn Arnars Egilsson, kafara, sem stjórnaði aðgerðum á slysstað, var áhrifamikil, og dró vel fram hversu magnað björgunarfólk við Íslendingar eigum. Hann sagði aðstæður hafa verið mjög erfiðar og reynt hefði mikið á þol manna.
Það er mikil lukka að eiga björgunarfólk eins og það, sem kom að björgunaraðgerðum í Sveinsgili. Hafi það þakkir fyrir faglega framgöngu í hvívetna.