Það virðist ljóst að heilbrigðismál, og aukin framlög til samfélagsþjónustu, verða á oddinum í komandi kosningum. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa fyrir ansi löngu gert slíkt að lykilmálum hjá sér og í árlegri könnun sem framkvæmd er fyrir Pírata á því hvaða mál þjóðin setji helst á oddinn hafa níu af hverjum tíu aðspurðum sagt heilbrigðismál. Þau eru einnig mjög áberandi í þeirri stefnu sem nýja hægri-framboðið Viðreisn hefur kynnt. Við þetta bætist hin magnaða undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar þar sem gerð var krafa um að útgjöld til heilbrigðismála hækki um 60 milljarða á ári, og 85 þúsund manns skrifuðu undir. Samandregið er nokkuð ljóst hver þjóðarviljinn er.
Svo virðist sem að ráðandi öfl í stjórnarflokkunum séu að átta sig á þessu. Það sást best á drottningarviðtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu um helgina. Tilgangur viðtalsins var að senda þau skýru skilaboð til kjósenda að heilbrigðismál og menntun verði í forgrunni hjá Sjálfstæðisflokknum verði hann við völd á næsta kjörtímabili, þótt svo hafi ekki verið á því sem nú stendur yfir.
Þá vantar bara að Framsókn klári sína vandræðalegu foringjakreppu og tilkynni um risaupphæð sem flokkurinn ætlar að setja í heilbrigðismál ef hann fær að stjórna áfram, og fyrir liggur þverpólitísk þjóðarsátt um málið.