Fyrirtæki á Íslandi verða of oft uppvís að ólöglegu verðsamráði og öðrum samkeppnislagabrotum. Eitt af alvarlegri málum undanfarinna ára er án efa samráð olíufélaganna þriggja sem stunduðu yfirgripsmikið ólöglegt verðsamráð í heil 8 ár; frá 1993 til loka árs 2001. Sektargreiðslur upp á 1,5 milljarða voru staðfestar af Hæstarétti í ársbyrjun 2016, rúmum 11 árum eftir að ákvörðun Samkeppnisstofnunar (nú Samkeppniseftirlitsins) lá fyrir. Samfélagslegt tap vegna þessara brota var af sérfræðingum OECD metið á um 40 milljarða.
Ég gluggaði í úrskurð Samkeppnisstofnunar í þessu alræmda máli og verð að viðurkenna að ég hafði gleymt hversu yfirgengilegt það var. Neytendum hefur oft verið sendur fingurinn en sjaldan með jafn afgerandi hætti. „Fólk er fífl!“ voru ein af ótal skilaboðum sem send voru á milli stjórnenda á meðan á samráðinu stóð og kannski þau frægustu enda fönguðu þau ágætlega virðingarleysið gagnvart neytendum og nýsettum samkeppnislögum.
Árið 1999 birtist grein í Neytendablaðinu þar sem rýnt var í ársreikning Skeljungs fyrir árið 1998 og var yfirskriftin „Hagnaður Shell - allur á kostnað neytenda“. Í greininni er bent á skort á samkeppni og að lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu hefði alls ekki komið neytendum til góða enda samkeppninni ekki fyrir að fara. Í greininni segir m.a. „Verðlagning á olíuvörum er hins vegar svipuð hjá hinum stóru, þannig að stundum mætti ætla að gagnkvæm hlustunartæki væru til staðar á stjórnarfundum þeirra“. Enn voru þá tvö ár í að Samkeppnisstofnun hæfi rannsókn á eldsneytismarkaðinum og engan grunaði umfang samráðsins. Greinarhöfundur las hins vegar stöðuna rétt. Hann bætir við „Sjaldan hefur birst ársreikningur, eins og ársreikningur Skeljungs, þar sem svo berlega sést að vandamálum í stjórnun fyrirtækis og skorti á hagræðingu er velt á neytendur. Spurningin er bara þessi: Á þetta líka við um Olís og Esso?“ Í dag vitum við að hagræðing var ekki efst í huga forstjóranna. Þeir þurftu ekki að velta við hverjum steini í rekstrinum með það að markmiði að lækka verð eða bjóða betri þjónustu en samkeppnisaðilinn. Þeir ákváðu einfaldlega sín á milli hvað þeim þætti ásættanlegt verð til neytenda.
Af hverju er ég að rifja þetta mál upp? Misnotkun Mjólkursamsölunnar á markaðsráðandi stöðu sinni (lesist einokunaraðstöðu) er auðvitað mál samkeppnismálanna þessa dagana. En mér finnst mikilvægt að olíusamráðsmálið gleymist ekki. Það, rétt eins og önnur samkeppnislagabrot, sýnir hversu mikilvægt það er að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja frelsi á mörkuðum. Það er þeirra að búa þannig um hnútana að ný fyrirtæki eigi auðvelt með að ná fótfestu og að Samkeppniseftirlitið geti brugðist hratt og vel við brotum og stöðvað þau í fæðingu. Það sem stjórnvöld eiga EKKI að gera er að tryggja einu fyrirtæki í mjólkuriðnaði, Mjólkursamsölunni, einokunarstöðu á markaði. Þá er með öllu ólíðandi að fyrirtæki sem hefur allt að því einokunarstöðu í krafti umdeildra laga og tollverndar skuli í ofanálag brjóta lög til að losa sig við örfáa, litla innlenda keppinauta. Útistandandi mál Mjólku verða vonandi leidd til lykta fljótlega og fróðlegt verður að fylgjast með skaðabótamáli fyrrverandi eiganda Mjólku gegn MS. Innkoma Mjólku hafði góð áhrif á markaðinn og það sama gildir um Örnu sem bauð nýjung fyrir íslenska neytendur; laktósafríar mjólkurvörur. En vart var laktósafría mjólkin komin í verslanir þegar MS var allt í einu líka farin að framleiða laktósafría mjólk. Ekkert ólöglegt á ferð en lúalegt athæfi hjá fyrirtæki sem nýtur yfirburðarstöðu í boði stjórnvalda. Kannski væri þessi yfirburðastaða og undanþágan frá samkeppnislögum ekki svo umdeild ef fyrirtækið hefði haldið sig innan ramma samkeppnislaga að öðru leyti og sýnt sanngirni gagnvart þeim fyrirtækjum sem hafa reynt að fóta sig í þessu erfiða umhverfi. En það hefur MS ekki gert.
Nú er mál að linni. Nóg er um samkeppnislagabrot og markaðsbresti hér á landi þótt slíkt sé ekki látið viðgangast í boði stjórnvalda. Rjúfa þarf einokun í mjólkuriðnaði enda morgunljóst að núverandi staða er óviðunandi. Ég treysti því að meirihlutinn á Alþingi þvælist ekki fyrir slíkum breytingum þegar þing kemur saman í ágúst.
Höfundur er þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.