Af hverju eru messur hluti opinberra viðburða? Eru þær þá aðeins fyrir kristið fólk? En hvað með hina sem ekki trúa eða eru annarrar trúar? Er sá hópur ekki hluti af sama samfélagi? Er samfélagið fyrir alla eða bara suma?
Innsetning forseta í embætti
Þessar spurningar og reyndar fleiri hafa leitað á huga minn undanfarið þegar ég fór að velta fyrir mér hvernig innsetningu forseta allra Íslendinga er háttað. Ég leitaði að lögum og reglugerðum um hvernig á að setja nýjan forseta í embætti.
Árangurinn var enginn – ekkert fannst.
Ég sendi forsætisráðuneytinu erindi og óskaði eftir því að fá í hendur dagskrá við innsetningu forseta og hvaða lög eða reglur gilda um hana. Nú rúmri viku síðar hefur ekkert svar borist þrátt fyrir að hafa sent ítrekun. Ég sendi einnig skrifstofu forseta Íslands og skrifstofu Alþingis sömu fyrirspurn og var búinn að fá svar frá þeim innan við tveimur klukkutímum eftir að ég sendi fyrirspurnina. Takk fyrir það. Svörin voru reyndar samhljóða: 1. Nei, það eru engin lög eða reglur um þessa viðburði, heldur langar hefðir. 2. Skipulagning og innihald eru á ábyrgð forsætisráðuneytis. Til upplýsingar þá fer innsetning forseta í embætti þannig fram að byrjað er með messu í Dómkirkjunni.
Setning Alþingis
Setning Alþingis allra Íslendinga hefst á messu. Það eru engin lög eða reglur sem segja að þing eigi að hefjast á messu heldur er það tæplega tvö hundruð ára gömul hefð frá miðri 19. öld sem höfð er til leiðsagnar. Siðmennt sendi forsætisnefnd þingsins erindi fyrir nokkru þar sem óskað er eftir því að messu sé sleppt enda samrýmist það ekki veraldlegu þinghaldi að hefja störf á messu. Því var hafnað. Sumar hefðir eru góðar, aðrar slæmar. Eins og allir vita er auðvelt að breyta hefðum.
17. júní
Enn eitt dæmið voru hátíðarhöldin á sjálfum þjóðhátíðardegi allra Íslendinga. Í dagskrá hátíðarinnar kemur fram að hún hefjist á klukknahljómi kirkna og síðan messu. Síðar um daginn var „Þjóðhátíðarbænahald“ kristinna trúfélaga.
Útilokandi samfélag?
Hvers konar samfélag er það sem heldur viðburði sem ætlaðar eru öllum þegnum þess en þar sem hluti þeirra eru trúarlegar athafnir? Er ekki eitthvað bogið við að ekki sé gert ráð fyrir að allir þegnar samfélagsins taki þátt í athöfnum sem eiga að þjappa okkur saman til að auka samheldni?
Nú vakna nokkrar spurningar eins og: Er hér trúræði eða trúfrelsi? Ef svarið er það fyrra – trúræði – þá skil ég ósköp vel að slíkir viðburðir hefjist með bænahaldi. Ef svarið er – trúfrelsi – þá virðist hér ríkja samfélaga fyrir suma – aðeins fyrir þá kristnu. Samfélag sem útilokar hluta, og reyndar meirihluta þegna sinna.
Rökin fyrir útilokandi samfélagi
Því er haldið fram að yfir 70% Íslendinga séu skráðir í Þjóðkirkjuna og þjóðin því kristin og á þeirri forsendu sé réttlætanlegt að byrja slíka viðburði á messu. Einnig er þeim rökum beitt að í stjórnarskrá er eitt trúfélag sett stalli hærra en önnur lífsskoðunarfélög, trúarleg eða veraldleg og því allt í lagi að mismuna.
Staðreyndirnar
Það er rétt að 70% Íslendinga eru skráðir í kirkjuna og stjórnarskráin er eins og hún er. Frá því að hafist var handa við að kanna afstöðu Íslendinga til stöðu kirkjunnar frá árinu 1994 hefur meirihluti Íslendinga stutt aðskilnað ríkis og kirkju án þess að þingmenn hafi haft dug til þess að fylgja því eftir. Reyndar hefur þessi meirihluti farið stækkandi: Hann var um 60% í upphafi mælinga en hefur verið yfir 70% frá árinu 2009.
Í könnun Siðmenntar sem fyrirtækið Maskína framkvæmdi í vetur kemur fram að 72% Íslendinga vilja skilja að ríki og kirkju. Aðeins 25% svarenda telja sig eiga mjög mikla eða mikla samleið með þjóðkirkjunni en um 47% telja sig eiga litla eða enga samleið með henni.
Sú staðhæfing að íslenska þjóðin sé kristin er ekki í samræmi við afstöðu meirihluta Íslendinga, miðað við niðurstöður könnunarinnar. Samkvæmt henni segjast 46% Íslendinga vera trúuð, sem er lægsta gildi sem sést hefur í könnunum. Tæp 30% segjast ekki trúuð og 23,7% segjast ekki geta sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki. Þó 46% Íslendinga segist trúaðir eru ekki nema 36% sem trúa helstu kenningum kirkjunnar um guð, eilíft líf og upprisuna. Yngsti aldurshópurinn sker sig úr en 80,5% telja enga vissu fyrir guði, eru trúlaus eða trúa alls ekki.
Það ber einnig að hafa í huga að þar til árið 2013 hafa hvítvoðungar verið sjálfkrafa skráðir í trúfélag móður. Síðan þá þurfa bæði foreldri að vera í sama trúfélagi til að nýfædda barnið renni sjálfkrafa á skrá trúfélags foreldranna. Þessi háttur er helsta ástæða þess að 70% eru enn skráðir í þá kirkju sem stór hluti þjóðarinnar telur sig eiga takmarkaða samleið með.
Samfélag fyrir alla
Ég tel að þessu verði að breyta. Það er margt sem sundrar fólki í fylkingar og því sérstakt að ríkið og aðrir opinberir aðilar virðast vera í fararbroddi að skapa útilokandi samfélag. Samfélag sem útilokar hluta og jafnvel stóran hluta þjóðarinnar við viðburði sem samfélagið stendur að. Við þurfum samfélag sem allir geti fundist þeir vera hluti af.
Þess vegna heitir það SAM-FÉLAG.