Viðhorf lögreglustjórans í Vestmannaeyjum til nauðgana eru athyglisverð. Lögreglustjórinn, Páley Borgþórsdóttir, hefur verið töluvert í umræðunni síðan Fréttablaðið og Stöð 2 greindu frá því að lögregluumdæmið ætlaði ekki að upplýsa strax um möguleg kynferðisbrot á komandi Þjóðhátíð í Eyjum. Hún sagði flestar nauðganir „eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. […] Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer og vonandi munum við ekki sjá það og reynum að fyrirbyggja með öflugri gæslu og svona, þessi almannafærisbrot.“
Með öðrum orðum er lögreglustjórinn að segja að það sé ekki eðlilegt að upplýsa almenning um nauðganir sem séu framdar í lokuðum rýmum. En öðru máli gegni um „almannafærisbrot“ þar sem ofbeldismenn fremja brot - ekki í lokuðum rýmum. Flestir á Þjóðhátíð eiga sín lokuðu rými í tjaldi. Því má skilja lögreglustjórann sem svo að ef konu er nauðgað í tjaldi, mögulega sínu eigin tjaldi sem hún fór inn í sjálfviljug, verði sú nauðgun ekki upplýst, enda ekki „almannafærisbrot.“ Ef konunni er hins vegar nauðgað fyrir utan tjaldið, þar með ekki í lokuðu rými, stafi almenningi mögulega ógn af ofbeldismanninum og því verði nauðgunin upplýst. Enda verði líka mögulega erfiðara fyrir lögreglu að þegja um brot sem fleiri gætu hafa séð. Staðreyndin er samt sem áður sú að Eyjamenn hafa einungis haldið þrjár Þjóðhátíðir síðustu 12 ár þar sem engin nauðgun var tilkynnt.
Ummæli lögreglustjórans í ár koma fram í hápunkti undirbúningsviku Druslugöngunnar árlegu, sem hefur það yfirlýsta markmið að útrýma kynferðisbrotum, hætta þögguninni í kring um nauðganir, skila skömminni, segja frá, láta nauðgara vita að það sé ekki í lagi að nauðga og undirstrika að þolendur kynferðisofbeldis eigi ekki að skilgreina sig út frá ofbeldinu. Það verður að teljast kaldhæðnislegt - og táknrænt.