Rannsóknarsetur verslunarinnar greindi frá því í síðustu viku að erlend greiðslukortavelta hérlendis hefði aldrei verið hærri en í nýliðnum júnímánuði. Þá voru erlend greiðslukort straujuð fyrir 26 milljarða króna. Í frétt setursins var einnig greint frá því að mestum peningum var að jafnaði eytt á greiðslukortum sem útgefin eru í Sviss. Alls var meðaleyðsla á slíkt kort 245 þúsund krónur. Það þýðir að 63 prósent meira var tekið út af hverju svissnesku greiðslukorti hérlendis í júní en t.d. hverju bandarísku korti sem notað var á Íslandi í sama mánuði. Í raun kemst ekkert þjóðerni nálægt Sviss þegar kemur að meðaleyðslu á greiðslukort hérlendis. Landið er það eina sem Rannsóknarsetur verslunarinnar greinir sem er með meðaleyðslu yfir 200 þúsund krónur á hvert greiðslukort í júní.
Nú liggur fyrir að Sviss er ríkt land og að íbúar þess hafi umtalsverðan kaupmátt. Því er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að þeir eyði meira en íbúar annarra landa þegar þeir ferðast. En önnur skýring gæti líka verið á þessari miklu eyðslu á svissnesk greiðslukort. Að þau séu í eigu Íslendinga sem starfa, búa og lifa á Íslandi, en kjósa að geyma peninganna sína annarsstaðar. Kastljós og Reykjavík Media greindu til að mynda frá því að nokkrir stjórnmálamenn væru í einkabankaþjónustu hjá svissneska bankanum Julius Baer og fyrir liggur að þar starfaði íslenskur starfsmaður um nokkurt skeið. Þá liggur fyrir að efnaðir Íslendingar, sem stundum þurfa að dvelja á Íslandi, hafa sest að í Sviss. Landið er þekkt fyrir mikla bankaleynd og því verið eftirsóknaverður staður fyrir peninga þeirra sem vilja alls ekki að aðrir viti um þá.
Yfirvöld hérlendis hafa áður ráðist í umfangsmiklar rannsóknar, og í einhverjum tilfellum saksóknir, vegna gruns um skattsvik í tengslum við notkun Íslendinga á erlendum greiðslukortum. Það var gert á árinu 2009 vegna korta sem útgefin voru í Lúxemborg. Hin meintu brot fólust í því að þær tekjur sem notaðar voru til að greiða af kortunum voru ekki taldar fram hérlendis.