Hvernig er hægt að ætlast til þess að landið dafni þegar aðstæður námsmanna eru eins og þær eru í dag? Menntun eykur verðmætasköpun og skiptir öllu máli í þróun og nýsköpun samfélagsins. Menntakerfið í dag hrekur áhugasama og lærdómsþyrsta einstaklinga úr námi heldur en að hjálpa þeim að komast til mennta.
Þegar þú hefur háskólanám, forvitin, eftirvæntarfull og ákveðin stendur þú frammi fyrir því að þú færð ekki eyri frá LÍN fyrr en þú ert búin að ná öllum prófum fyrstu annar – eftir hálft ár semsagt! Þú verður að byrja á því að gjöra svo vel og fara til bankans og biðja um brúarlán, sem dugar þangað til þú færð LÍN-lánið sem þú svo greiðir fyrra lánið með. Já, ég er ekki að grínast. Þetta gerir þú auðvitað, byrjar að læra og gerir þitt allra besta. En úps, þú ert ekki í góðu jafnvægi því þú hefur erfiðar aðstæður heima fyrir, og fellur á einu prófinu. Ó nei, hvað nú? Það sem gerist er að þú færð ekki greitt fyrir þetta síðasta fag frá LÍN – peningana sem þú ert þegar búin að eyða í uppihald í gegnum önnina.
Næstu önn tekurðu fleiri vaktir á viku (því að sjálfsögðu varstu með vinnu fyrstu önnina enda ljósár í að námsmenn á Íslandi geti verið í fullri vinnu sem námsmenn, en það er önnur saga) til að ná endum saman og reyna að greiða niður skaðann frá fyrri önn. Þetta tekst að lokum eftir mikið streð, en þá nálgast prófin og þú hefur ekki getað sinnt náminu sem skyldi vegna þess að þú þurftir að vinna svo mikið! Ó nei, hvað nú? Eftir svefnlausar vikur tekst þér það að ná öllum prófunum – sem er hreint út sagt ótrúlegt miðað við aðstæðurnar. Til hamingju.
Árið líður og allt í einu ertu hálfnuð með grunnnámið, vei! En svo kemur babb í bátinn (eins og alltaf með LÍN, ef sjórinn er spegilsléttur er það alltaf lognið fyrir stormið) – þetta ár sem þú þurftir að taka á þig fleiri vaktir til að greiða fyrir fall fyrstu annarinnar vannstu OF mikið svo LÍN ákveður að þú skulir fá MINNA lán þetta árið, því þetta blessaða lán er auðvitað tekjutengt. Það sem þú getur gert núna er að gráta í koddann og biðja alla anda um að hjálpa þér en ekki gleyma að þakka fyrir að þú sért ekki í námi erlendis – því þar er búið að saxa svo á námslánin undanfarin ár að þar er nánast ómögulegt að komast af. Og auk þess eru tekjumörkin ekki hærri þar en á Íslandi, svo til dæmis í Noregi geturðu unnið um helming af því sem íslenskir stúdentar á Íslandi geta því að norska krónan – og sömuleiðis kostnaður við að lifa – er hærri. Þetta þrátt fyrir að námsmenn erlendis hafi engan til að halla sér að og þurfa að greiða mikið fyrir flugmiða heim reglulega.
En sei sei – þú heldur vítahringnum áfram og vinnur meira til að gera upp fyrir tapað námslán vegna vinnu síðasta árs og kemst í gegnum námið þótt ótrúlegt megi virðast. Bravó! En það er svo sannarlega ekki LÍN að þakka.