Í fréttum er þetta helst: Formaður Framsóknarflokksins er kominn heim. Það verður teljast stórmerkilegt að hann snúi aftur miðað við allt sem á undan er gengið, enda fátt sem hefur fengið jafn mikla umfjöllun undanfarið og téður formaður.
Bréf formannsins sem birt var í fjölmiðlum tíundar þau verk og loforð sem flokkurinn hefur unnið og staðið við á núverandi kjörtímabili, en þar einnig varað við þeim viðbrögðum sem yfirlýsingin kann að vekja meðal fólks og þá hugsanlega þeirra sem teljast til andstæðinga Framsóknarflokksins. Nú verð ég að viðurkenna að ég telst líklega til andstæðinga flokksins og viðbrögð mín voru hrein og klár undrun. Undrun á því að enn séu til Framsóknarmenn sem telja að flokkurinn sé Íslands eina von og þar fari boðberar betri tíma á Íslandi, auk undrunar á því að formaðurinn ætli sér að snúa af fullum krafti í stjórnmálabaráttuna eftir að hafa verið rúinn öllu trausti (eða svo gott sem). Það vantar ekki hreðjarnar á þeim bænum.
Gerðar eru kröfur á Sjálfstæðisflokkinn um að „stóru málunum“ sé lokið áður en gengið verði til kosninga og er þar með gefið í skyn að ekki eigi að kjósa í október líkt og áður hefur verið gefið út. Bent er á að „ríkisstjórn sem ekki nýtir tímann sem henni er veittur geti ekki gengið út frá því sem vísu að hún fái tæki færi til að klára verkefnin síðar“ og því sé tíminn til að standa við loforðin núna. Mæl þú manna heilastur, en þetta er of seint. Tíminn er liðinn og þetta er komið gott.
Þær kosningar sem nálgast varða framtíð lýðveldisins ekki síður en lýðræðisins. Við mættum ekki á Austurvöll í apríl til að fá ekki að kjósa. Við mættum ekki til að viðhalda því umhverfi spillingar og sérhagsmuna nú er við lýði. Og við mættum alls ekki til að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.
Við mættum til að lýsa því yfir að nú er nóg komið af spillingu, einka(vina)væðingu og hagsmunapoti fárra útvaldra, eða hinnar svokölluðu „elítu“. Við mættum til að sýna að almenningur vill hafa eitthvað að segja um framtíð lands og þjóðar. Það er nóg komið af auðssöfnun og valdadýrkun hinna fáu og það er kominn tími til að tekið sé tillit vilja hinna mörgu. Krafan var, og er, skýrari en nokkurn tímann áður: Við viljum nýja tíma og breytt stjórnarfar.
Nú er lag að skella skútunni í slipp og skipta um áhöfn. Þó að formaðurinn vilji að Framsókn leiði þjóðina í þeim sóknarfærum sem hann sér, þá er nú ekki víst allir séu sáttir við það. Sóknarfæri sem byggjast á spillingu og baktjaldamakki eru, að ég held, ekki það sem við þurfum á þessum tímapunkti eða nokkrum öðrum ef því er að skipta.
Heillavænlegast væri að kjósa ekki yfir okkur flokka sem hjakka í sama farinu áratug eftir áratug og hafa fyrir lifandi löngu misst sjónar á því hvað er vænlegt fyrir land og þjóð. Það hlýtur að vera vænlegra að kjósa þá sem eru tilbúnir að hlusta á óskir landsmanna og vinna að réttlátu samfélagi fyrir alla.
Það væri Íslandi allt!
Greinarhöfundur er á prófkjörslista Pírata í Norvesturkjördæmi.