Það verður erfiðara og erfiðara að ráða í ástandið á stjórnarheimilinu. Eftir fordæmalaust uppþot í apríl, sem leiddi til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem forsætisráðherra, náðu Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson að rétta fleyið af, meðal annars með því að lofa haustkosningum, þótt stuðningur við ríkisstjórnina mælist enn einungis 33,9 prósent.
Þeir hafa síðan báðir ítrekað það margoft opinberlega að kosið verði í haust og flokkar þeirra eru á fullu við að undirbúa slíkt. Það hafa aðrir stjórnmálaflokkar einnig verið að gera og sum prófkjör meira að segja afstaðin.
Í gær snéri Sigmundur Davíð hins vegar aftur og boðaði í bréfi til félagsmanna að hann myndi á næstunni hefja fulla þátttöku í stjórnmálum, mærði eigin verk og sagði árangur Íslands vera vegna „róttækrar skynsemishyggju“ hans. Í bréfinu sagði hann enga ástæðu til að kjósa í haust og að raunveruleg hætta væri á því að árangrinum yrði kastað á glæ. „Aðrir munu ekki klára vinnu okkar í verðtryggingarmálinu, þeir munu ekki koma á heilbrigðu fjármálakerfi eins og nú er loks tækifæri til og þeir munu ekki gera það sem þarf til að efla byggð á landinu öllu. Tíminn til að standa við loforðin sem við höfum gefið er því núna,“ sagði Sigmundur Davíð, og bætti við á öðrum stað: „að undanförnu höfum við til dæmis kynnst því að það er ekki auðvelt að berjast fyrir almannahagsmunum þegar menn mæta eins áhrifamiklum andstæðingum og þeim sem við höfum verið að takast á við.“
Ekki er sagt hverjir þessir áhrifamiklu andstæðingar eru. Og heilt yfir er dálítið erfitt að átta sig á því við hverja Sigmundur Davíð er að berjast í þessum málum. Varðandi afnám verðtryggingar, sem Framsóknarflokkurinn lofaði í aðdraganda síðustu kosninga, þá er sá flokkur sem er mest á móti þeirri hugmynd samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn. Sá stjórnmálamaður sem hefur talað hæst gegn hugmyndum Framsóknarflokksins um samfélagsbanka er Bjarni Benediktsson og alls óljóst er hvað Sigmundur Davíð á við þegar hann talar um að efla byggð í landinu.
Það verður því varla röksemdarfærslan sem styðjast á við til að fresta kosningum að ekki hafi tekist að sannfæra Sjálstæðisflokkinn, samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, um að skipta um skoðun í ofangreindum málum?