Að undanförnu hafa birst greinar eftir a.m.k. tvo mektarmenn sem spáð hafa Bjartri framtíð dauða. Egill Helgason hefur reyndar aldrei verið sérstakur aðdáandi okkar einhverra hluta vegna og Styrmir Gunnarsson sá ágæti maður tjáði skoðun sína á aðferðarfræði stjórnmálaflokka við að fást við innri vandamál sín og sagði af því tilefni að allir þegðu. Þannig væri Björt framtíð að deyja en þegði um það.
Vissulega hefur Bjartri framtíð ekki gengið vel í skoðanakönnunum undanfarið. Líklega hefðum við þingmennirnir fengið meiri athygli ef við hefðum reiðst oftar, blótað í ræðustóli Alþingis, gefið út glannalegar yfirlýsingar og almennt sýnt af okkur meiri brussu- og gassagang. En þannig vinnum við bara ekki. Björt framtíð hefur átt góðu gengi að fagna innan þings og ég held mér sé óhætt að segja að samstarf okkar við þingmenn annarra flokka hafi almennt gengið vel.
Óttarr Proppé formaður flokksins leiddi t.d. vinnu við umdeilt frumvarp um ný lög um útlendinga til lykta, í góðri sátt allra flokka. Hið sama er uppi á teningnum í sveitarstjórnum þar sem við eigum fulltrúa. Aukið gagnsæi, meira samráð við aðra flokka og aukið íbúalýðræði er t.d. birtingarmynd innkomu Bjartrar framtíðar á vettvangi sveitarstjórnar í Kópavogi. Menn hafa nú fagnað af minna tilefni. Og þingmenn Bjartrar framtíðar hafa lagt fram hlutfallslega næstflest frumvörp og þingsályktunartillögur í þinginu og verið duglegastir þingmanna allra flokka við að styðja góð mál, jafnvel þó aðrir hafi haft frumkvæði að þeim. Það segir sína sögu um vinnubrögð flokksins, að ryðjast upp úr hjólförum gamla tímans og svart-hvítri, pólariseringu gömlu stjórnmálanna, jafnvel þó það sé ekki í tísku og við fáum ekki athygli út á það. Það eru engir seðlabankastjórar eða ritstjórar í okkar röðum sem banna með öllu stuðning við góð mál vegna eignarhalds annarra á þeim. Við styðjum góð mál samfélagsins vegna, ekki flokksins vegna.
En aftur að kristalskúlum og kaffibollaspám. Það hefur ekki verið bjart yfir flokknum í kaffibolla Egils Helgasonar í gegnum tíðina. Ekki geri ég athugasemdir við hans skoðanir. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að þokuslæðingur gæti verið í kristalskúlum hans og Styrmis Gunnarssonar. Ég geri því alvarlegar athugasemdir við yfirlýsingar þeirra um meintan dauða flokksins. Enda þótt vinnubrögð okkar hugnist ekki skoðanamyndandi stjórnmálaskýrendum sem aðhyllast átakastjórnmál er Björt framtíð sprelllifandi, við ágæta heilsu og mun bjóða fram krafta sína í næstu kosningum. Ég legg því til að menn láti lofta aðeins um kristalskúluna, taki niður svart-hvítu gleraugun og sjái Bjarta framtíð sem það sem hún er. Uppflettingar á vef Alþingis gætu jafnvel hjálpað til.
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.