Viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, á Útvarpi Sögu á miðvikudag hefur vakið verðskuldaða athygli. Þar ræddi hann það sem þáttarstjórnendur kölluðu „árásina“ á forsætisráðherrann fyrrverandi fyrir fjórum mánuðum, þegar skjöl sem lekið hafði verið frá panamsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sýndu tengsl Sigmundar Davíðs við félagið Wintris. Það er skráð til heimilis í skattaskjólinu Bresku Jómfrúareyjunum, á yfir milljarð króna í eignum og er auk þess kröfuhafi í bú föllnu íslensku bankanna.
Sigmundur Davíð sagði að ansi margir hafi staðið á bakvið „árásina“. „Þá er þetta lið til í að taka þátt í því sem sá þarna tækifæri til að höggva að manninum sem var að berjast gegn verðtryggingunni eða manninum sem vildi hrista upp í fjármálakerfinu eða manninum sem var búinn að ná öllum bönkunum nema Arion-banka til ríkisins og ætlaði að endurskipuleggja fjármálakerfið. Það var mikið undir þarna og margir sem sáu þarna tækifæri til að losna við mig,“ sagði Sigmundur Davíð.
Helsta ástæðan, að hans mati, fyrir að taka hann niður hafi þó verið „haftastríðið þar sem verið var að fást við mjög öfluga andstæðinga sem höfðu beinlínis sagt mér að ég myndi hafa verra af ef ég myndi klára svona.“
Sigmundur Davíð sagðist hafa nokkuð góða hugmynd um hverjir stæðu að baki „árásinni“ sem hafði verið „undirbúin í sjö mánuði, í nokkrum löndum og beitt þessum gögnum, sem að [George] Soros vogunarsjóðskóngur hafði keypt og greinilega gat notað að vild.“ Hann styrkti þessa samsæriskenninguna sína, að eigin mati, með því að benda á að nánast engir Bandaríkjamenn né vogunarsjóðsstjórar væru í skjölunum.
Sigmundur Davíð er þar væntanlega að vísa í að George Soros hefur gefið fé til að styrkja starfsemi ICIJ, alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna sem unnu að birtingu Panama-skjalanna. Sú peningagjöf Open Society Foundations - sjóðs sem Soros stofnaði og stýrir - hefur raunar aldrei verið neitt leyndarmál og er hennar m.a. getið á heimasíðu ICIJ.
En samsæriskenning Sigmundar Davíðs er heldur ekki ný af nálinni. Í byrjun apríl, þegar fyrsti skammtur af fréttum úr Panama-skjölunum fór að birtast, héldu margir misáreiðanlegir aðilar henni stíft fram, m.a. samsæriskenninga-sérfræðingurinn Alex Jones. Á meðal annarra samsæriskenninga hans er sú að lögleiðing hjónabanda samkynhneigðra sé runnin undan rifjum alþjóðasinna sem vilji eyða hinu hefðbundna fjölskylduformi og að bandaríski flugherinn stýri veðrinu. Jones taldi birtingu skjalana þó ekki vera árás á Sigmund Davíð heldur Vladimir Pútín, forseta Rússlands.
Samsæriskenningin hélt þó ekki lengi vatni.
Það er nefnilega að minnsta kosti einn vogunarsjóðstjóri og spákaupmaður með bandarískan ríkisborgararétt í skjölunum. Sá heitir George Soros. Panama-skjölin sýndu að hann felur fé og fjármagnar verkefni úr fjölda aflandsfélaga sem eiga heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum, á Bermúda og í Panama. Þessar opinberanir komu Soros því ekkert sérstaklega vel og varla verður hann ásakaður um að hafa hannað árás á sig sjálfan?