Nýsköpun er víða stunduð og með margbreytilegum hætti, s.s í sprotafyrirtækjum en einnig með breyttum og bættum aðferðum í hefðbundnum fyrirtækjum og meðal hinna skapandi greina. Til að auðvelda hagnýtingu þeirrar nýsköpunar sem sprettur af sköpunarkrafti þekkingar í vísinda- og tæknigreinum með stofnun og uppbyggingu sprotafyrirtækja má ýmsu breyta hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt. Núverandi starfsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki er enn sem fyrr ófullnægjandi og nýsköpunargjáin óbrúuð. Breyttan hugsanahátt og ný úrræði þarf til viðbótar þeim sem nú eru til staðar til að leysa nýsköpunina úr læðingi.
Hvað eru sprotafyrirtæki?
Flest sprotafyrirtæki byrja með viðskiptahugmynd sem byggir á einhvers konar nýrri tækni eða nýrri aðferðafræði úr heimi vísinda og tækni. Þau hafa á að skipa stofnendum, frumkvöðlum og öðrum brautryðjendum (s.s. fyrstu starfsmönnum og öðrum aðstandendum) en eru að öðru leyti með tvær hendur tómar í upphafi. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að þurfa að verja mörgum árum í rannsóknir og þróun áður en framleiðsla og sala afurða hefst. Þar á eftir þurfa þau að hasla sér völl á markaði, sem í flestum tilfellum er alþjóðlegur og krefst þess að fyrirtækið sé í fremstu röð á heimsvísu til þess að standast samkeppnina. Þessi vegferð fram að arðbærum rekstri er oft 10 – 15 ára eyðimerkurganga og almennt nefnd nýsköpunargjáin. Kostnaður við að þvera nýsköpunargjána nemur gjarna hundruðum milljóna króna eða milljörðum.
Eitt af hverjum tíu sprotafyrirtækjum heppnast
Reynslan sýnir að sprotafyrirtæki eru áhættusöm. Einungis um eitt af hverjum tíu þeirra heppnast, en þau fáu sem tekst ætlunarverk sitt, færa mikil verðmæti í formi nýrra og betri lausna og atvinnuhátta, skapa ný og betri störf og aukna þekkingu fyrir samfélagið. Þau eru líklegri en önnur fyrirtæki til að skapa nýja atvinnuvegi og umbylta lífi fólks. Fyrirtæki á borð við General Electric, Ford, Apple, Google, Marel, CCP og Stofnfisk voru eitt sinn sprotafyrirtæki. Það er þekkt alþjóðlegt fyrirbæri að áhættan sem fylgir sprotafyrirtækjunum letur aðkomu fjárfesta og fjármagn frá opinberum aðilum dugar hvergi nærri til að koma sprotafyrirtækjunum yfir nýsköpunargjána. Mikil þekking vísindamanna veraldarinnar, sem birt hefur verið og er öllum aðgengileg, er því ekki hagnýtt. Þessari þekkingu má líkja við vannýtt fiskimið sem tiltölulega fáir gera út á. Í þessu felast tækifæri fyrir þá sem kunna að gera út á þessi mið.
Íslendingar hafa hæfileika til nýsköpunar
Ég trúi því að Íslendingar hafi góða hæfileika til nýsköpunar og geti, með menntun og skipulögðum vinnubrögðum, orðið mikilvirkir „útgerðarmenn” á mið vísinda- og tækniþekkingar, rétt eins og þeir eru góðir í útgerð á hefðbundin fiskimið.
Í þessu sambandi má benda á athyglisverðan árangur í uppbyggingu þeirra sprotafyrirtækja á Íslandi sem hafa komist yfir nýsköpunargjána sem greint var frá nýlega í rannsókn Startup Europe Partnership Monitor. Flest þeirra fjölda mörgu sprotafyrirtækja sem verða til á hverju ári, ekki síst fyrir hvatningu opinberra aðila, komast þó ekki í þennan hóp í núverandi viðskiptaumhverfi, vegna annmarka þess, og eru í því raun „fallbyssufóður“ nýsköpunarinnar. Forsenda fyrir hagkvæmum umbótum og bættu starfsumhverfi er greining á nýsköpunarferlinu, þ.e. hvernig þekkingu úr vísinda- og tæknigeiranum er umbreytt yfir í arðbært sprotafyrirtæki.
Skoðanir mínar á vanda og hugmyndir að lausnum fyrir sprotafyrirtæki byggi ég á eigin reynslu í vísindum og af uppbyggingu sprotafyrirtækja undanfarin 30 ár. Um miðjan níundar áratuginn upplifði ég mikið bil milli vísindamanna og aðila í rekstri einkafyrirtækja. Ég var nýútskrifaður vísindamaður með áhuga á hagnýtum rannsóknum til að efla atvinnulífið. Ég varð lítið var við umfjöllun um hvernig ætti að koma rannsóknaniðurstöðunum til nota hjá fyrirtækjum landsins. Stjórnendur fyrirtækja höfðu almennt vantrú á að fjármunum þeirra væri vel varið með ráðningu vísindamanna til að stunda rannsóknir og þróun innan þeirra raða. Bilið milli vísindamanna og atvinnurekenda hefur minnkað á undanförnum árum en er enn víða til staðar. Hafandi verið bæði sérfræðingur og stjórnandi atvinnurekstrar skil ég sjónarmið beggja en sé um leið mikil tækifæri glatast vegna bilsins. Hvað getum við gert til að brúa þetta bil?
Tenging opinbera R&Þ geirans við fyrirtæki er of lítil
Viðhorf gagnvart nýsköpun á Íslandi hefur batnað mjög á undanförnum árum, ekki síst meðal opinberra aðila. Flestir stjórnmálaflokkar hafa nýsköpun á málaskrá sinni, Vísinda- og tækniráði hefur verið komið á laggirnar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands sett á stofn, Tækniþróunarsjóður efldur og sett upp kerfi um skattaívilnun vegna nýsköpunar, svo nokkuð sé nefnt.
Fyrir nokkrum árum var gerð úttekt á því hve miklu fé er varið til rannsókna og þróunar á Íslandi. Skýrslan leiddi í ljós að talsverðum fjármunum er varið af hinu opinbera og af einkaaðilum til slíkrar starfsemi en að tenging á milli opinberra aðila og einkaaðila er lítil.
Nýlega kom út Hugverkastefna fyrir Ísland, sem mótuð var í samstarfi opinberra aðila og einkageirans. Gagnlegar upplýsingar koma fram í Hugverkastefnunni og það er afar jákvætt og hvetjandi að sjá að fagleg greining og aðferðafræði skuli notuð til framþróunar á mikilvægum málefnum sem þessu. Í kafla um aðgerðir í Hugverkastefnunni (Verkefni framundan) segir orðrétt „Stefnt er að því að á Íslandi sé starfrækt ein öflug tækni- og þekkingaryfirfærsluskrifstofa. Slík skrifstofa geti aðstoðað alla háskóla og rannsóknarstofnanir við að yfirfæra þekkingu sem orðið hefur til og gera úr henni verðmæti“. Þarna kemur hins vegar ekki fram hvert á að yfirfæra þekkinguna en síðar í textanum koma fram áform um að setja á stofn nefnd til að finna út úr því hvert á að yfirfæra hana. Sé hugmyndin sú að yfirfæra þekkingu til fyrirtækja verður yfirfærslan að vera á forsendum markaðslausna og fyrirtækjarekstrar en ekki með lausnum opinberra stofnana.
Aðgerðir til eflingar nýsköpunar eru enn sem komið er, að verulegu leyti stofnanalægar og skortir samspil við fyrirtækin í landinu. Myndbirting þessa kemur m.a. fram í því að einungis fjórir af 39 aðal- og varamönnum í Vísinda- og tækniráði koma frá einkafyrirtækjum og þar af er einungis einn sem hefur átt allt sitt undir í sprotafyrirtæki (þótt sumir starfsmenn opinberra stofnana hafi tengst sprotafyrirtækjum). Þeir sem hafa þurft að fara yfir nýsköpunargjána og lagt allt sitt undir í sprotafyrirtæki þekkja best hvað þarf til að komast alla leið. Þeir vita að þótt stuðningur frá stofnunum geti komið sér vel þá verður sprotafyrirtækjum ekki komið á fót með stofnanalausnum, heldur er það fyrst og fremst alhliða hæfileiki teymisins í sprotafyrirtækinu og fjármagn til að gera það sem þarf sem ræður úrslitum um árangur þess.
Flöskuhálsinn í nýsköpunarumhverfinu
Frá mínum sjónarhóli snýst nýsköpun í atvinnulífinu um að koma þekkingu í notkun hjá fyrirtækjum til að framleiða og selja nýjar vörur og þjónustu. Jákvætt viðhorf opinberra aðila til nýsköpunar er mikilvægt en nægir ekki eitt og sér ef skortir tengsl við þann viðskiptalega fókus sem fyrirtækin þurfa að hafa og skilning allra aðila á því í hverju hagsmunir þeirra felast.
Það má líkja aðilum í nýsköpunargeiranum við fótboltalið sem í eru leikmenn á borð við sprotafyrirtæki, frumkvöðla, starfsmenn fyrirtækjanna, fjárfesta, og fulltrúa vísinda- og rannsóknastofnana, atvinnuvegnaráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Einkaaðilarnir eru með allan hugann við að skora mörk og vinna leikinn (búa til hagnað af arðbærum rekstri) - en opinberu aðilarnir, hvað eru þeir að gera? Margir þeirra eru afar jákvæðir, þekkja orðfæri leiksins vel og eru oft tæknilega færir. Af atferli þeirra á vellinum mætti hins vegar halda að þeir hafi ekki áttað sig á því það þurfi að skora mörk til að vinna leiki og jafnvel að þeir viti ekki á hvaða mark á að spila. Það er erfitt að vinna leiki með slíku liði. Í þessum leik eru reglurnar reyndar þannig að það þarf að skora mismunandi mörk. Fjárfestar og frumkvöðlar vita vel að mörkin þeirra felast í arðgreiðslum frá velheppnuðu og arðbæru fyrirtæki. Hið opinbera virðist hins vegar ekki hafa sett niður fyrir sig í hverju mörkin felast fyrir umbjóðendur þeirra þ.e. skattgreiðendur, sem leggja fram fjármagn til hins opinbera.
Ætla mætti að að hið opinbera sjái eingöngu þá hlutdeild sem felst í hagnaði fyrirtækjanna sem þó er jafnan ekki meira en um 5% þeirra verðmæta sem fyrirtæki skapa, en yfirsjáist öll hin verðmætin sem sprotafyrirtæki skapa, í formi nýrra og betri atvinnuhátta fyrir þjóðina með betri störfum og öðrum betri kjörum fyrir hana, t.d. launatekjum, sköttum, þjónustutekjum o.fl. sem nema a.m.k. 80% verðmætanna. Þetta eru stærstu og mikilvægustu hagsmunir þjóðarinnar af nýsköpuninni og því þarf að gæta þeirra betur en nú er gert.
Til að setja þetta í samhengi er bent á að sömu atvinnuhættir væru til staðar og voru fyrir 100 árum ef ekki hefði komið til nýsköpun. Viljum við það? Skortur á skilningi forsvarsmanna hins opinbera á hagsmunum skattgreiðenda og samfélagsins í þessu samhengi er einn stærsti flöskuhálsinn í nýsköpunarumhverfinu í dag. Þjóðin þarfnast nýsköpunar og hún er illmöguleg án samstarfs opinberra aðila og einkaaðila. Nýjustu aðgerðir núverandi ríksistjórnar til stuðnings við nýsköpun eru skref í rétta átt en eru mjög afmarkaðar og bera þess merki að vera friðþæging frekar en þróttmiklar aðgerðir til að ná skilgreindum ávinningi fyrir þjóðina sem á endanum skila litlu sem engu. Hugsanahætti hins opinbera þarf að breyta í þessu efni. Allir hagsmunaaðilar tengdir nýsköpun hafa hag af því að hið opinbera átti sig vel á því í hverju hagsmunir þjóðarinnar felist og starfi í samræmi við það.
Nýsköpunargjáin óbrúuð
Mikilvægustu tæki hins opinbera til að styðja við nýsköpun sem byggir á vísindum og tækni eru Tækniþróunarsjóður og skattaívilnun vegan nýsköpunar. Þessi kerfi eru góð svo langt sem þau ná. Það munar um styrki frá Tækniþróunarsjóði og þeir gefa sprotafyrirtækjum ákveðin gæðastimpil. Skattaívilnun er góð til að styðja við nýsköpun innan fyrirtækja sem þegar eru með arðbæran rekstur og hafa burði til að fjármagna 80% kostnaðar við rannsóknar- og þróunarstarfsemi á móti þeim 20% sem skattaívlinunin greiðir. Þessi kerfi nægja hins vegar hvergi nærri fyrir sprotafyrirtækin sem eiga fæst þau 80% fjármagnsins sem þarf fyrir rannsóknar- og þróunarstarfsemina á móti skattaívilnuninni. Samanlögð, fjármagna framangreind tæki hins opinbera yfirleitt innan við 15% af því sem sprotafyrirtæki þurfa, til að brúa nýsköpunargjána og það blasir við að fjárframlög frá hinu opinbera duga ekki ein og sér. Megnið af fjármögnun sprotafyrirtækja þarf því að koma frá fjárfestum sem fá í núverandi viðskiptaumhverfi einungis um 5 % ávinnings af þeim, ef vel tekst til. Opinberir aðilar, fyrir hönd almennings, njóta hinsvegar 80 % ávinningsins og hafa því ríka hagsmuni af aðkomu fjárfesta ásamt því að vera í lykilstöðu til að bætta líkur á árangri. Að koma sprotafyrirtæki á fót þarfnast samstarfs einkaaðila og opinberra aðila. Slíkt samstarf þarf að vera á viðskiptalegum grunni.
Framþróun
Sem skattgreiðandi ætlast ég til að stjórnvöld nýti vel skattgreiðslur mínar og vil fá verðmæti fyrir það sem greitt er fyrir af hálfu hins opinbera, í þessu tilfelli nýja og betri atvinnuhætti eða aðrar betri lausnir fyrir þjóðina en þær sem nú bjóðast. Til að sinna hagsmunum þjóðarinnar þarf að útbúa hagkvæmar reglur og starfsumhverfi fyrir framgang sprotafyrirtækja sem gæta með eðlilegum hætti að hagsmunum allra þeirra sem leggja fram vinnu og fjármagn til uppbyggingar sprotafyrirtækja, þ.m.t. hagsmunum vísindamanna, vísinda- og tæknistofnana, brautryðjenda/frumkvöðla sem og fjárfesta. Til þess að fleiri sprotafyrirtæki komist yfir nýsköpunargjánna þarf hið opinbera að setja upp viðskiptahvata til að laða fjármagn frá fjárfestum og framlag framangreindra aðila að sprotafyrirtækjum. Best væri að viðskiptahvatarnir felist í aukinni hlutdeild þessara aðila í þeim verðmætum sem þeir sannanlega búa til fyrir þjóðina. Slík hlutdeild verði greidd eftirá og í samræmi við verðmæti sem búin eru til en ekki fyrirfram og í hlutfalli við kostnað R&Þ verkefnanna eins og núverandi kerfi standa fyrir. Greinarhöfundur hefur lagt fram nánari hugmyndir á öðrum vettvangi um betri útfærslur á starfsumhverfi fyrir sportafyrirtæki en ekki verður farið út í nánari lýsingu á þeim hér. Þær og aðrar góðar hugmyndir í þessa veru þarf að rýna og bæta.
Greinarhöfundur er einn af stofnendum og fjármálastjóri ORF Líftækni hf. Hann hefur tekið þátt í starfi atvinnuveganefndar Viðreisnar.