Í síðustu viku birti Hagstofa Íslands nýjar tölur um fjölda íbúa á Íslandi. Þar kom fram að á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 fluttu 40 fleiri Íslendingar til landsins en frá því. Á sama tímabili fluttu 2.440 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en yfirgáfu það, sem þýðir að 98,3 prósent aðfluttra umfram brottfluttra eru útlendingar. Íbúar landsins með erlent ríkisfang hefur fjölgað um tæplega átta þúsund frá miðju ári 2011 þegar þeir voru 6,6 prósent íbúa og eru nú 28.880, eða 8,7 prósent íbúa.
Aðfluttir umfram brottflutta á árinu 2015 voru 1.447 talsins. Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgaði á sama tíma um 2.460. Hagstofan gerir ráð fyrir að þessi þróun muni halda áfram næstu 50 árin. Þ.e. að íslenskir ríkisborgarar sem leiti tækifæranna í öðrum löndum frekar en hér verði 850 fleiri að meðaltali á ári en þeir sem skila sér aftur heim eftir dvöl erlendis. Á 50 árum eru þetta um 43 þúsund manns. Til landsins munu hins vegar koma um 1.600 fleiri útlendingar á ári en flytjast frá því. Á 50 árum gera það um 80 þúsund manns. Verði Íslendingar 442 þúsund talsins árið 2065, líkt og spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir, ættu erlendir ríkisborgarar þá að verða um 107 þúsund talsins, eða um fjórðungur þjóðarinnar.
Ástæða þessa er augljós. Á Íslandi eykst vilji á meðal íbúa til að ná sér í fjölbreytta háskólamenntun ár frá ári. Hlutfall háskólamenntaðra á meðal starfandi einstaklinga hefur t.d. aukist úr 11 prósentum í tæp 34 prósent frá árinu 1991 til loka síðasta árs og á hverju ári útskrifast á fjórða þúsund úr háskólum landsins. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem eru með með háskólamenntun en eru án atvinnu aukist um 275 prósent á tíu árum og 25,2 prósent þeirra sem voru atvinnulausir á árinu 2015 voru háskólamenntaðir.
Nær öll ný störf sem verða til á Íslandi eru nefnilega láglaunastörf innan ferðaþjónustu sem krefjast lítillar eða engrar menntunar. Samfélagið býr því ekki til störfin sem íbúar þess vilja sinna heldur störf sem flytja þarf inn fólk til að ganga í. Engin áhersla er á að auka framleiðni í gegnum það að fjölga stoðunum undir efnahagnum, heldur miðar ríkisreksturinn við að þjónusta þær frumatvinnugreinar sem þar eru fyrir.
Því blasir við sú mynd að annað hvort verði gripið til aðgerða til að stöðva spekileka Íslendinga úr landi með samstilltu átaki um betri tækifæri og bætt lífskjör þeirra eða að samfélagið breytist með þeim hætti að fjórðungur landsmanna verði erlendir ríkisborgarar innan hálfrar aldar, flestir í láglaunastörfum.
Stjórnmálaprófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson er einn þeirra sem hefur látið skoðun sína í ljós á þessari stöðu. Í júlí sagði hann í stöðuuppfærslu á Facebook að honum fyndist of miklum tíma eytt til ónýtis í skólum. Lækka ætti stúdentsaldur niður í 18 ár og leggja meiri áherslu á hagnýtt nám og minni á háskólanám. „Okkur vantar matsveina, múrara og smiði, ekki fleiri óánægða opinbera starfsmenn, sem hanga á Facebook í vinnutímanum og dreymir um ferðir til Brüssel,“ sagði Hannes. Svo virðist sem honum muni verða að ósk sinni á næstu áratugum ef fram fer sem horfir, þótt matsveinarnir og iðnaðarmennirnir verði reyndar ekki íslenskir nema að ríkið fari að beita sér sérstaklega fyrir því að Íslendingar sæki sér ekki háskólamenntun.