Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í athyglisverðu viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun. Þar kom glögglega fram að hann er kominn í kosningaham. Hann gerði það m.a. enn frekar ljóst að Framsóknarflokkurinn hyggst keyra á verðtryggingarmálunum í næstu kosningum, með tali um að allt hafi nánast verið tilbúið í þeim málum áður en hann hafi tímabundið þurft að draga sig í hlé. Hann skaut á Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna og sagði báða flokka gæta ákveðinna hagsmuna inni á þingi, en blés auðvitað alveg á allar hagsmunatengingar Framsóknarflokksins við landbúnað og Kaupfélag Skagfirðinga.
Eitt til viðbótar vakti athygli. Umræða hefur skapast um það að kosningarnar í haust muni í raun vera á milli þeirra sem vilja breyta kerfinu og hinna sem vilja halda hlutunum eins og þeir eru, og iðulega eru ríkisstjórnarflokkarnir taldir til sem varðmenn hins síðarnefnda. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur til að mynda sagt að fyrsta kosningamálið sé að standa gegn kerfisbreytingum og nýrri stjórnarskrá.
Í gær kvað allt í einu við annan tón í Framsókn – því Sigmundur Davíð segir það sína eftirsjá á þessu kjörtímabili að stjórnvöld hafi ekki verið „nógu dugleg í því að taka á kerfinu og breyta því. Kerfið er orðið sjálfstætt vandamál. Þar hefði ég viljað sjá okkur gera miklu meiri breytingar og hraðar.“ Nýir flokkar hafa einkum talað fyrir kerfisbreytingum undanfarið, með Pírata í broddi fylkingar. Svo nú vaknar spurningin: ætlar Sigmundur Davíð að reyna að stilla Framsókn upp með umbótaöflunum?