Nú nýverið steig Jón Gunnarsson, formaður atvinnumálanefndar, fram og opnaði á hugmyndir um markaðsvæðingu í kvótakerfinu. Þótt hugmyndin snúist aðeins um lítinn pott sem verði boðinn upp árlega til að mæta þörfum fiskvinnsla verða þetta að teljast nokkrar fréttir. Undanfarna áratugi hefur stefna Sjálfstæðismanna og Framsóknar nefnilega verið nánast samhljóma LÍÚ (núna SFS). Þetta gerðist í kjölfar þess að fréttir bárust af uppboði Færeyinga á kvóta, bæði þorskkvóta í Barentshafi og hluta makrílkvótans. Uppboð á makríl eru ekki nýjar fréttir, Færeyingar hafa gert þetta undanfarin ár og hefur Samherji m.a. keypt af þeim makrílkvóta fyrir margfalt það verð sem þeir greiða fyrir aðgang að makrílnum hér. Sá mikli munur sem er á því verði sem Færeyingar fá á uppboði og því sem útgerðin greiðir hér hefur vakið upp spurningar og efasemdir um fyrirkomulagið á Íslandi.
Þegar gengið var á Gunnar Braga Sveinsson og Jón Gunnarsson, formann atvinnumálanefndar, um fýsileika uppboðsleiðar hér á landi, mátti heyra gamalkunnug rök varðhunda stórútgerðarinnar. Þessi rök opinbera að þeir hagsmunirnir sem þessir kjörnu fulltrúar okkar gæta eru ekki hagsmunir almennings. Rök eins og að uppboð þýði að stórir aðilar kaupi upp allan kvótann og að hann safnist á fárra hendur. Væru hagsmunir almennings hafðir að leiðarljósi væri auðvelt að finna lausnir á þessu. Aðgengi misfjársterkra aðila að kvóta er tryggt með því að aðeins er borgað málamyndagjald við uppboðið og restin innheimt við sölu á markaði. Nú þegar eru til staðar reglur um hámarkseign á kvóta sem tryggja að hann safnist ekki fyrir á fárra hendur – ekki er nein ástæða til að breyta því. Lög um að öllum afla skuli landað á markað á Íslandi tryggja að fiskurinn verður ekki fluttur annað, þótt útlendingar myndu mögulega sækjast eftir því að veiða hann.
Jón Gunnarsson lét líka hafa eftir sér í vikunni að aðskilnaður veiða og vinnslu og frjálsar handfæraveiðar kæmu alls ekki til greina en hvort tveggja er hluti af stefnu Pírata í málaflokknum. Aðskilnaður veiða og vinnslu, samhliða því að allur fiskur fari á markað, er nauðsynlegur eigi sömu samkeppnisreglur að gilda í sjávarútvegi og gilda í flestum öðrum atvinnugreinum á Íslandi (og Vesturlöndum). Í dag þarf vinnsla án útgerðar að kaupa fisk á markaði en keppir við vinnslu sem fær fisk frá útgerð í eigu sömu aðila og borgar verð sem er ekki markaðsverð. Þetta er að auki eitt mikilvægasta mál landsbyggðarinnar þar sem þetta gjörbreytir forsendum fiskvinnslunnar – hún verður ekki lengur háð því að til sé kvóti á staðnum. Við slíkar aðstæður hefði sala á 1.600 tonnum frá Þorlákshöfn lítil áhrif á fiskvinnslu á staðnum. Tillaga Jóns Gunnarssonar um 3.000 tonn á uppboðsmarkað er aðeins örlítið skref í þessa átt en tekur ekki á þessu brenglaða samkeppnisumhverfi. Að auki er fiskurinn í sjónum takmörkuð auðlind en vinnslumöguleikar eiga sér lítil takmörk. Því er eftirsóknarvert og þjóðhagslega hagkvæmt að til verði gróska og sérhæfing í fiskvinnslu, sem leiðir til virðisaukningar á takmarkaðri auðlind – aðskilnaður veiða og vinnslu styður við það.
Varðandi frjálsar handfæraveiðar, þá er það skref út úr því kerfi aflamarks sem við höfum haft hér áratugum saman. Það þýðir að engar magntakmarkanir verði á ákveðnum hluta flotans, þ.e. handfæraveiðibátum. Okkur er tamt að hugsa innan þessa kerfis þótt skammt undan séu Færeyingar með allt annað fyrirkomulag sem byggist á sókn en ekki magni og virðist ganga ágætlega. Við erum ekki að tala um að kollvarpa kerfinu hér og fylgja fordæmi þeirra, aðeins að hluti flotans, sá hluti sem notar handfæri sem engin leið er að ofveiða með, fái að veiða með takmörkum á sóknartíma en ekki aflamagni.
Færa má ýmis rök fyrir þessu, fyrir utan gríðarlegan ávinning fyrir byggðir landsins. Kannski þau helstu að mælingar á fiski í sjónum geta aldrei orðið mjög nákvæmar. Alveg sama hversu góðir vísindamenn það eru sem vinna hjá Hafró, og engin ástæða til að efast um hæfni þeirra – verkefnið er illframkvæmanlegt. Fyrir nokkru sendi ég fyrirspurn til þeirra um hver skekkjumörkin væru í mati á hrygningarstofni tegunda eins og þorsks. Fyrir þá sem ekki vita það er hrygningarstofn tegundar notaður til grundvallar þess kvóta sem veiddur er, þ.e. talið er að óhætt sé að veiða 20% af hrygningarstofni þorsks á hverju ári. Heilbrigð skynsemi segir að skekkjumörkin hljóti að vera umtalsverð en svarið sem ég fékk var dálítið óljóst fyrir leikmann eins og mig. Mér fróðari maður í þessum fræðum mat skekkjumörkin 15% út frá þeim upplýsingum.
Hafró setur fram tillögur um kvóta á hverju ári sem eru tiltölulega nákvæmar, 244.000 tonn af þorski fyrir næsta kvótaár, þrátt fyrir að vera væntanlega meðvitaðir um skekkjumörkin. Fimmtán prósent skekkjumörk þýða á komandi kvótaári 36.600 tonna sveifla (Tvöfalt það ef skekkjumörkin miðast við plús/mínus 15%). Til að setja þetta í samhengi þá er heildarafli á strandveiðum í ár 9.000 tonn. Miðað við þær forsendur er óvitlaust að hluti flotans stundi veiðar sem taka mið af raunverulegum aðstæðum í sjónum hverju sinni og lagi sig að þeim, veiðar sem geta aldrei gengið of nærri stofnunum.
Sjálfsagt þarf meiri umræðu um þessi mál og frekari útfærslu en í öllu falli þurfum við aðkomu fólks sem horfir á þessi mál út frá hagsmunum almennings en ekki úr vasanum á Kaupfélagi Skagfirðinga eða öðrum kvótaeigendum.
Kjartan Jónsson er framkvæmdastjóri Múltikúlti – tungumálamiðstöðvar og frambjóðandi í prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu.