„Kvótakerfið var eitt af stóru málunum sem varð til þess að ég yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn. Það er grófasta dæmið um það hvernig sérhagsmunir fárra manna ráða stefnu flokksins. Það er gleðilegt að sjá hjá Viðreisn að þar er talað mjög ákveðið um að þessum gæðum verði úthlutað gegn gjaldi á uppboðum og ég tel það lykilatriði í þróun kvótakerfisins með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi,“ segir Gísli Halldór Halldórsson í viðtali við hinn ágæta vef BB.is.
Gísli Halldór er fulltrúi Í-listans svonefnda, sem er sameiginlegur listi félagshyggjufólks í bænum. Hann var áður í Sjálfstæðisflokknum.
Hann segist sjálfur ekki ætla að taka sæti á lista, en verður formaður uppstillingarnefndar á lista flokksins í kjördæminu.
Gísli Halldór segir í samtali við BB.is að hann sjái Viðreisn sem afl sem berjist gegn hagsmunagæslu „gömlu flokkanna“.
Líklega er Gísli Halldór á réttum slóðum í þessari greiningu sinni, þó setja megi Pírata, og fleiri framboð, einnig í það mengi sem stilli sér upp sem valkosti gegn hagsmunagæslunni.
Miklu mun skipta í kosningunum í haust, hvernig þessi stefna verður framkvæmd og útlistuð. Það er ekki nóg að segjast ætla að vinna gegn hagsmunagæslu, heldur þarf stefnan að vera skýr og það þarf að liggja fyrir hvernig það verður gert. Margir upplifa það eflaust þannig, eins og það skipti ekki öllu máli hvaða flokkar eru með valdaþræðina í höndum sínum, því kerfið breytist lítið.
En það gæti breyst í þetta skiptið...