Þann 1. ágúst síðastliðinn birtist frétt á vef RÚV sem virðist ekki hafa farið neitt sérlega hátt, sem er einkennilegt miðað við inntak hennar. Þar er vitnað í færslu háttvirts sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem hann segir að síðustu mánuðir Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti veki spurningar. Það er svosem ekki farið nánar út í það hverjar þessar spurningar eru eða hvers vegna þær vöknuðu, en það er merkilegt að þær skuli hafa vaknað hjá einhverjum meðlimum Framsóknarflokksins og þá mögulega Sjálfstæðisflokksins líka, án þess að það sé vitað.
Nú gæti einhver spurt af hverju það sé merkilegt. Ástæðan er frekar einföld. Allt frá Alþingiskosningum hafa engar spurningar vaknað um eigið ágæti hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokknum. Það hafa engar spurningar vaknað um það hvað sé almenningi fyrir bestu. Það hafa, nota bene, engar spurningar vaknað um hvað sé siðferðislega rétt eða rangt. Og það hafa svo sannarlega ekki vaknað neinar spurningar um hvort standa eigi við þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar.
Við skulum ekki gleyma heimsmetinu sem slegið var vegna skuldaleiðréttingarinnar þar sem að veita átti 240 milljörðum króna til lækkunar húsnæðislána. Þegar á hólminn var komið nam úborgunin hinsvegar 80 milljörðum. Afganginn átti að fjármagna með sérignalífeyrissparnaði þeirra sem vildu nýta sér það. Heimsmetið var því í raun aðeins ævintýri á blaði, og ekkert sérlega vel ritað ef því er að skipta.
Við skulum ekki gleyma bréfinu góða sem hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnarráðherra ritaði í tíð sinni sem utanríkisráðherra þar sem frekari viðræður um aðild að Evrópusambandinu voru slegnar út af borðinu og ennfremur var óskað eftir því að ekki yrði litið á Ísland sem umsóknarríki. Það vakti óneitanlega furðu í Brussel og einnig hér heima, og svo virtist sem þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna hafi týnst einhversstaðar. Mögulega var hún „lost in translation“.
Við skulum ekki gleyma tilfærslu á veiðiheimildum smábáta í Suðurkjördæmi yfir í Skagafjörð og nágrenni sem er, merkilegt nokk, heimabyggð hæstvirts sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þessi skerðing kom sér vægast sagt illa fyrir smábátaeigendur syðra og varð til þess að þeir gátu í raun aðeins róið fjóra daga í júlímánuði. Þetta vekur upp spurningar.
Við skulum ekki gleyma Panamaskjölunum og Wintris. Þar var hæstvirtur (þáverandi) forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins gripinn í viðtali með allt lóðrétt niður um sig. Eignir í skattaskjólum, vafningar og möguleg skattsvik voru afhjúpuð og fólk stormaði á Austurvöll í mótmælaskyni. Fleiri nöfn komu fram í skjölunum en framreiddar voru skýringar og afsakanir fyrir öllu saman. Lausnin var að forsætisráðherra segði af sér og hrókerað væri létt á milli stóla. Ákall um kosningar strax voru virtar að vettugi og kosningar boðaðar að hausti „svo lengi sem það næðist að klára stóru málin fyrir þann tíma“. Það vakna óneitanlega spurningar um það hver þessi „stóru mál“ eru, enda afar fátt um svör og ekkert fast í hendi.
Þetta ásamt fleiru vekur upp einmitt upp spurningar og það mun stærri heldur en síðustu mánuðir Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetastólnum. Er þetta það stjórnarfar og þau vinnubrögð sem við viljum? Er þetta það sem við viljum kjósa yfir okkur? Er ekki komið nóg af spillingu og óráðsíu innan stjórnkerfisins og í samfélaginu? Er ekki kominn tími á breytingar?
Ég hvet ykkur öll til að skoða vel þá valmöguleika sem standa til boða í næstu Alþingiskosningum sem ættu að öllu jöfnu að fara fram á haustmánuðum (svo lengi sem stóru málin verði kláruð). Ég hvet ykkur öll til brjóta upp þetta mynstur sem við höfum búið við undanfarna áratugi. Ég hvet ykkur öll til að hrópa NEI gegn stöðnun og óbreyttu ástandi og kjósa breytingar til hins betra.
Við eigum það öll skilið.
Greinarhöfundur er á prófkjörslista Pírata í Norðvesturkjördæmi.