Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með málflutningi sumra talsmanna ríkisstjórnarinnar, einkum Framsóknarmanna, um þinglok nú í haust, boðaðar kosningar og ákvörðun kjördags. Horft er framhjá þeirri staðreynd að það var ríkisstjórnin sjálf og forustumenn hennar sem ákváðu að framlengja líf sitt um nokkra mánuði á vordögum. Sem sagt breyta sér í bráðabirgða ríkisstjórn til haustsins. Með þrjá ráðherra tengda Panama-skjölunum og aflandsfélagaósómanum, standandi frammi fyrir einhverjum mestu fjöldamótmælum sögunnar og með forsætisráðherra fallinn fyrir borð, boðuðu þeir sjálfir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, þessa skipan mála. Ríkisstjórnin hefur því frá vorinu verið bráðabirgða ríkisstjórn að eigin vali sem segja má að sé næsti bær við starfsstjórn.
Kosturinn við „stigayfirlýsingu“ Bjarna Benediktssonar um þetta atriði er að hún var óvenju skýr, óvenju afdráttarlaus. „Þetta kjörtímabil verður stytt um eitt löggjafarþing“ sagði hann. Það þýðir að nýtt þing, sem að óbreyttum lögum ætti að hefjast þriðjudaginn 13. september næstkomandi, verður aldrei sett, verður aldrei haldið. Við hlið hans stóð tilvonandi forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, og hreyfði engum mótmælum við þessari formúleringu fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Þvert á móti staðfesti hann ákvörðun þeirra um haustkosningar.
Þetta loforð forustumanna verðandi bráðabirgða ríkisstjórnar var einhliða. Þetta var þeirra mótleikur við mótmælunum, hneykslun almennings og réttmætri reiði í kjölfar afhjúpunar Panama-skjalanna og kröfunni um þingkosningar strax. Loforðið var gefið þjóðinni, kjósendum landsins, en ekki stjórnarandstöðunni sem vildi kosningar strax. Ýmsir úr röðum stjórnarflokkanna, einkum Framsóknarmenn sem greinilega eru skíthræddir við kosningar, tóku fljótlega að reyna að setja ýmis skilyrði fyrir efndum á loforðinu og skjóta ábyrgðinni á því yfir á aðra. Það stenst auðvitað ekki skoðun.
Kjördag þarf að ákveða strax
Ástæður þess að margir, og þar á meðal undirritaður, hafa lagt áherslu á að kjördagur verði tímanlega ákveðinn eru efnislegar og fullgildar. Almennar þingkosningar eru viðamikið ferli. Frambjóðendur og flokkar þurfa að vita hvaða tíma þeir hafa til margskonar undirbúnings. Þjóðskrá, sendiráð og ræðismenn þurfa að vinna sína undirbúningsvinnu. Landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir kjördæma þurfa að undirbúa sinn hluta framkvæmdarinnar. Sveitarstjórnir þurfa að gera ýmsar ráðstafanir, tryggja þarf að húsnæði fyrir kjörstaði verði til reiðu á tilsettum tíma, o.s.frv. o.s.frv. Atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skal hefja átta vikum fyrir kjördag samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis nema kosningar beri svo brátt að, að því verði ekki við komið og þá eins fljótt og verða má. Þetta þýðir að þótt kosið yrði svo seint sem 29. október ætti atkvæðagreiðsla utan kjörfundar samt að opnast í byrjun september.
Loks er það svo varðandi rétt íslenskra ríkisborgara sem búsettir hafa verið erlendis í meira en átta ár á kjördegi að þeir þurfa að sækja sérstaklega um að komast á kjörskrá. Ákvæðin sem um það gilda eru gölluð og tengjast þannig dagsetningunni 1. desember ár hvert að umsóknarleiðin er lokuð þegar kosningar ber óvænt að á síðari hluta árs. Þessu er einfalt og sjálfsagt að kippa í liðinn, en þarf við núverandi aðstæður að gera með lagabreytingu. Þá lagabreytingu þarf að gera strax nú í upphafi sumarsþings og þá miðað við fastsettann kjördag.
Að lokum er ein veigamikil röksemd fyrir því að fastsetja nú sem allra fyrst og helst í næstu viku kjördag og fylgja því svo eftir með þingrofs tillögu á tilsettum tíma, sem næst 45 dögum fyrir kjördag. Kosningar að hausti veita nýrri ríkisstjórn og nýjum þingmeirihluta takmarkaðan tíma til að setja mark sitt á fjárlög komandi árs, þeim mun skemmri sem kosið er seinna á haustinu. Af þessum sökum væri auðvitað æskilegast og lýðræðislegast að kjósa frekar fyrri hlutann í október en seinni hlutann eða undir lok mánaðarins. Af þeim sökum og fjölmörgum öðrum gildum ástæðum, sem alls ekki hafa allar verið listaðar hér að ofan, er ekki eftir neinu að bíða.
Steingrímur J. Sigfússon.