Fjórar
milljónir norskra laxaseiða voru í vor sett út í íslenskar
sjókvíar. Á þessu ári er gert ráð fyrir slátrun á 15.000
tonnum af eldislaxi og 20.000 tonnum á næsta ári. Fjöldi umsókna
um heimildir til eldis í sjó liggur nú fyrir hjá íslenskum
stjórnvöldum. Norskir fjárfestar standa að baki flestum, ef ekki
öllum, eldisfyrirtækjum, sem stofnuð hafa verið hér á landi.
Ekki er ólíklegt, að framleiðsla á eldislaxi margfaldist á
næstu árum með alvarlegum afleiðingum fyrir villta íslenska
laxastofna.
Helstu athugasemdir við stórfellt laxeldi í sjó eru þessar:
Hætta á erfðamengun og útrýmingu íslenskra laxastofna.
AuglýsingÓþrif og mengun. Rannsóknir hafa sýnt, að frá 10.000 tonna laxaeldi berst úrgangur, sem jafnast á við skolpfrárennsli frá 150.000 manna bæ. Þá berst grútur frá eldiskvíum að ströndum, þar sem hann getur valdið fugladauða.
Mikill fjöldi laxa sleppur úr kvíum; í Noregi viðurkenna eldismenn, að árlega sleppi yfir 300.000 fiskar (tölur eru á reiki) en vísindamenn segja, að margfalda megi þessa tölu með 4.
Sjúkdómar hafa herjað á eldislax. Miklir lúsafaraldrar hafa gengið yfir eldislax í Noregi og Færeyjum. Óttast er, að lúsin berist í náttúrulax frá eldislöxum. Lúsin drepur seiðin, þegar þau ganga til sjávar, og étur hold laxins. Eiturefnum hefur verið beitt gegn henni. Þau blandast svo úrgangi frá kvíum. Í Kanada og Chile hefur vírus, Infectious Salmon Anemia Virus, herjað á eldisstofna og valdið miklu búsifjum. Þá hefur önnur vírustegund, Salmon Leukemia Virus, drepið mikið af laxi.
Notkun eiturefna og sýklalyfja þykir víða keyra úr hófi og hafa neytendasamtök og vísindamenn varað við mikilli neyslu á eldislaxi. Til að fá rauða litinn í hold eldislaxa, eru notuð litarefni, sem að hluta eru unnin úr rækju. Ef þau væru ekki til staðar, væri holdið nánast litlaust eins og í þorski eða ýsu.
Í Noregi hefur laxeldi í sjó einkennst af linnulítilli baráttu við smitsjúkdóma, erfðablöndun í villtan laxastofn og lúsafaraldur, sem ógnar líffræðilegum fjölbreytileika.
Laxeldi í Noregi býr nú við harða gagnrýni fjölda vísindamanna, nátturuverndarsamtaka, veiðimanna, veiðiréttareigenda og nokkurra stjórnmálamanna. Norsku laxeldisfyrirtækin hafa því séð sér hag í því, að flytja hluta starfsemi sinnar til Íslands. Þau hafa því fjármagnað að stórum hluta íslensku eldisfyrirtækin. Hér geta þau alið lax í sjó og greiða óverulegar fjárhæðir í leyfisgjöld. Því vaknar þessi spurning; hverjir eiga hafið, þjóðin eða laxeldisfyrirtækin? Í Noregi þarf að greiða verulegar fjárhæðir fyrir eldis- og rekstrarleyfi, en hér er enn og aftur gengið á auðlind, sem er eign þjóðarinnar.
Víða er mótmælt
Fjölmargir einstaklingar og félög hafa á undanförnum vikum mótmælt risaeldi á norskum laxi í íslenskum fjörðum:
Landssamband veiðfélaga telur það óásættanelgt með öllu, að ekki skuli nú þegar hafa verið gert áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland. Veiðimálastofnun hafi ítrekað bent á, að meta þurfi á heildstæðan hátt þá hættu sem villtum laxastofnum er búin vegna stórfelldra áforma um sjókvíaeldi við Ísland. "Nái laxeldið fram að ganga er innan örfárra ára vissa fyrir eyðingu laxastofna í veiðiám landsins“, segir í ályktun.
„Gangi risaáform í sjókvíaeldi á kynbættum norskum laxi eftir, er um um að ræða óafturkræfa ógn við íslenska laxastofninn“, segir Jón Helgi Björnsson, formaður LV.
Í ályktun Veiðifélags Breiðdæla um risalaxeldi á Austfjörðum, segir m.a.: „Kynbreyttur laxastofn af útlenskum uppruna er óafturkræf ógn við íslenska laxastofninn og gengur af honum dauðum, ef svona risaáform ganga eftir til vibótar laxeldisáætlunum á öðrum svæðum. Þá axla fiskeldisverksmiðjurnar enga ábyrgð á eignaspjöllum og skaðvænlegum áhrifum á umhverfið. Fiskeldisverksmiðjan keppist nú við að helga sér svæði í austfirskum fjörðum, endurgjaldslaust fyrir risaáformin í laxeldinu. Í Noregi verða fyrirtæki að greiða háar fjárhæðir fyrir útgefin starfsleyfi og nýtingu sjávar til eldisins. – Að baki fyrirhuguðum fiskeldisáformum eru að stórum hluta útlenskir fjárfestar með erlent áhættufjármagn sem sjá sér hag í því, að nýta sér íslenskan sjó endurgjaldslaust, og veikburða lagaumhverfi, sem veitir hvorki aðhald með virku eftirliti, né skyldur fiskeldisfyrirtækja til ábyrgðar á verkum sínum“.
Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, hefur sent frá sér umsögn um möguleg áhrif sjókvíaeldis. Lögð var áhersla á að kanna skaðsemi laxfiskalúsa, erfðablöndun og áhrif á villta laxastofna. Í umsögninni er lýst miklum áhyggjum vegna laxfiskalúsar og enn meiri vegna hugsanlegra áhrifa eldislaxa, sem sloppið hafa úr eldisrými, á villta laxastofna. Fjöldi eldislaxa hafi sum ár mælst í nokkrum tilvikum 50% af hrygningarstofni í vatnakerfi. Slík erfðablöndun eyðir villtum laxastofnum.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í viðtali við Mbl. 17. Júlí s.l.: „Í ám landsins eru stofnar, sem geyma erfðamengi, sem er þúsunda ára gamalt, ef ekki eldra. Mér finnst ekki verjandi að við tökum áhættuna af því, í þágu atvinnuuppbygginar í nútímanum, að tjón, sem verður í fiskeldisstöðvum í hafi, geti með óafturkræfum hætti eyðilagt erfðamegni laxins í íslenskum ám. Eftir því sem laxeldi í sjó vex fiskur um hrygg, þá eykst hættan af svona umhverfisslysum. Við verðum að taka hana alvarlega og við verðum að gera það í tíma. Ég vil að menn staldri við, áður en frekari laxeldisleyfi í hafi verða veitt, og við gerum mjög ríkar kröfur í þágu þess lífríkis, sem við ætlum að standa vörð um“.
Fleiri umsagnir af þessu tagi er unnt að rekja, en summa þeirra er, að risaeldisáform, bæði á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði með erfðabreyttum norskum stofni, sé mesta náttúruvá íslenskra laxastofna og veiðiáa um allt land. Nái laxeldið fram að ganga sé innan örfárra ára vissa fyrir eyðinga laxastofna í veiðiám landsins.
Gagnrýnisraddir í Noregi
Eins og áður sagði hefur gagnrýni á laxeldi í sjó í Noregi vaxið mjög síðustu misserin. Í norska blaðinu Adresseavisen 28. júlí er greint frá nýrri skýslu Norska vísindaráðsins, sem fjallar um laxeldi. Þar er varað við þróun og afleiðingum sjávareldis á laxi. Lax, sem sloppið hafi úr eldiskvíum í mörg undanfarin ár, kunni að hafa haft óafturkræfar genetískar breytingar í villtum laxi. Hættan er nú metin meiri en í eldri skýrslum.
Torbjörn Forseth, formaður vísindaráðsins, segir genabreytingar hafa fundist í 40 laxastofnum. Í 31 séu þær verulegar. Þá segir hann laxalúsina mestu ógn, sem steðji að villtum stofnum vegna þess hve mikið magn af eldislaxi sleppur úr kvíum. Torbjörn telur, að ef ekki takist að koma í veg fyrir að lax sleppi, þá muni það þýða endalok margra staðbundinna laxastofna. Blöndun á eldislaxi og villtum laxi sé þegar orðin mjög mikil í mörgum ám.
Á síðasta ári var tilkynntu eldisfyrirtæki, að 244.000 laxar hefðu sloppið úr kvíum. (Aðrir segja 378.000) Það segir ekki alla söguna. Í rannsókn, sem norska Hafrannsóknastofnunin gerði á árunu 2005 til 2011, kom í ljóst, að fjöldi stroklaxa úr eldi var 4-sinnum meiri en tilkynningar sögðu til um. Fleiri hættur steðja að villta laxinum eins og áhrif af virkjunum og laxasýkli, Gyrodactylus Salaris.
Genamengun í mörgum laxveiðiám
Á ráðstefnu, Alta Wild Salmon Conference, sem haldin var fyrr á þessu ári, komu fram upplýsingar um ástand laxeldis í sjó og villta laxins, sem ollu nokkru uppnámi. Í erindi Evu B. Thorstad, vísindamanns hjá NINA, norsku náttúrurannsóknastofnunni, kom fram, að í aðeins 22% norskra laxveiðiáa væri ástandið gott og í lagi miðað við umhverfiskröfur. Dr. Trygve T. Poppe lýsti þeirri skoðun sinni, að ef ekki yrði nú þegar gripið til harkalegra verndaraðgerða, þá yrðu almennar laxveiðar úr sögunni innan fimm ára. Kjell Hindar frá NINA kvað 65% af norskum laxveiðiám hafa þegar orðið fyrir alvarlegum áhrifum vegna genamengunar og 20% þeirra hefðu skaðast alvarlega. Fiskeldismenn í Noregi hefðu tilkynnt um 378 þúsund eldislaxa, sem sloppið hefðu úr kvíum 2015. Vísindamenn fullyrða að þessi tala sé mun hærri, eða um 1 milljón laxa.
Jens Olav Flekki, formaður samtakanna „Björgum villta laxinum“ benti á þá staðreynd, að framleiðsla á 1,2 milljón tonnum af laxi í fjörðum Noregs, hefði leitt til þess, að Norðmenn hefðu misst stjórn á stroklaxiog lúsafaraldri. Lúsin skaðaði villtan lax og sjóbirting. Vegna stjórnlausrar notkunar á eiturefnum og lyfjum, hefði lúsin orðið ónæm fyrir þeim og væri nú óviðráðanleg. Fyrirhuguð námaverkefni á tveimur stöðum í norskum fjörðum, eru mikil ógn við líf í sjónum og þar með laxinn. Þar verður milljónum tonna af menguðu fráveituvatni hleypt í hafið. – Þar er komin ein af ástæðum þess, að norsk laxeldisfyrirtæki líta til Íslands.
Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna, flutti erindi á ráðstefnunni, þar sem hann, eins og margir aðrir, gagnrýndi norsk stjórnvöld fyrir aðgerðarleysi í málefnum laxeldisfyrirtækja. Hann sagði stjórnvöld ekki hafa neina stefnu, engin markmið og ekkert skynsamlegt hlutverk í eldismálum. Noregur þarfnaðist nýrra leiðtoga, sem gætu með aðgerðum endurvakið villta laxastofna til sögulegrar stærðar og mikilvægis.
Norskir fjárfestar
Á sama tíma og þessar fréttir berast frá Noregi, segir Höskuldur Steinarsson, framkvæmastjóri Landssamband fiskeldisstöðva á Íslandi, í samtali við norskan blaðamann, að nú þegar sé aðstaða til að framleiða 45 þúsund tonn af eldislaxi á Íslandi. Metnaður sé þó fyrir mun meiri framleiðslu. Íslendingar eigi framtíð sem umtalsverðir laxaframleiðendur. Hann segir jafnframt, að árið 2025 verði framleiðslan komin í 50 þúsund tonn. Framgangur málsins styðjist að mestu við fyrirtæki í norsku eignarhald.
Tvö til þrjú íslensk fyrirtæki hafi ekki getað fjármagnað reksturinn, verið keypt og Norðmenn komið að. Erlendir fjárfestar, nær eingöngu frá Noregi, taki þátt í eldinu. Þegar séu fimm eldisfyrirtæki farin að starfa. Stefnt sé að 90.000 tonna framleiðslu. - Þetta er svipað magn og Færeyingar framleiða,en þeir leyfa að hámarki 25% erlent eignarhald í laxeldinu.
Framkvæmdastjórinn segir, að hagræði þess að stunda laxeldi á Íslandi sé ódýr raforka, engir fisksjúkdómar og engin vandamál varðandi laxalúsina. Hægt sé að undirbúa viðbrögð vegna hennar og lágur sjávarhiti geri auðveldara að takast á við hana. Óhagræðið sé hins vegar lágur sjávarhiti, kaldir vetur og hár flutningskostnaður. –
Rétt er að hafa í huga, að Austfirðir og Vestfirðir eru taldir illa hæfir til laxeldis vegna sjávarkulda. Sjávareldi við svonefndar 1400 daggráður á Austfjörðum og undir 2000 daggráðum á Vestfjörðum verður seint samkeppnisfært við ódýrari framleiðslu í Færeyjum og Noregi vegna mun lengri eldistíma. Þá hefur sjávareldi orðið fyrir áföllum vegna undirkælingu og lagnaðaríss.
Laxeldi í sjó í fjörðum á Vestur- og Austurlandi telja margir að geti verið hluti af atvinnuuppbyggingu og á þeim forsendum ugglaust áhugamál íbúa. Í umræðunni fer hins vegar lítið fyrir neikvæðum áhrifum eldis í kvíum, t.d. áhrifin á stóru laxveiðiárnar á Austurlandi, Hofsá og Selá, grútarrek á fjörur og eignarhald erlendra aðila. Á sama tíma og hingað til lands koma þúsundir erlendra manna til starfa í fjölmörgum greinum, er holur tónn í fullyrðingu um atvinnuöryggi.
Á það hefur verið bent, að þau byggðarlög, sem hér koma helst við sögu, eigi meira undir eflingu ferðaþjónustu og sköpun nýrra tækifæra innan hennar. Laxeldi mun ekki hafa örvandi áhrif á ferðaþjónustu af margvíslegum ástæðum, kannski þvert á móti. – Ef laxeldi er alfa og omega atvinnuuppbyggingar, mætti draga úr „nauðsyn“ þess með því að bæta í kvóta byggðarlaganna, kvóta, sem á síðustu árum hefur verið keyptur til annarra útgerðarstaða.
Einnig hefur verið bent á, að laxeldi má reka á landi og bæta þar við bleikjueldi, sem virðist gefast vel. Þá er sá möguleiki fyrir hendi, að ala upp geldfisk, sem ekki veldur óafturkræfu umhverfistjóni með genamengun.
8-10 kg. af kolmunna í 1 kg. af laxi
Einn af neikvæðari þáttum laxeldis í sjó og sætt hefur ámæli, er gríðarleg notkun á fiski í laxafóður. Eldismenn segja, að 1,2 kg. af laxafóðri þurfi til að framleiða 1 kg. af laxi. Þá gleyma þeir að segja, að í þetta eina kílógramm af fóðri fara 8 til 10 kg. af fiski, t.d. kolmunna. Þannig notar laxeldið margfalt meira af fiski í fóður en nemur framleiðslu á laxinum. Talið er, að heimsafli á fiski nemi nú um 90 milljón tonnum og hefur dregist saman um 4 milljónir tonna frá hámarkinu 1996. Fyrir nokkrum árum fóru 16 milljón tonn í dýrafóður og hefur magnið vaxið síðan.
Vísindamenn segja þetta siðlausa notkun á fiski. Norski vísindamaðurinn Thorbjörn Trondsen, sem gagnrýnt hefur laxeldi í Noregi, kveðst hafa verulegar áhyggjur af smáfiskastofnum, sem notaðir eru í laxafóður. Eftirspurn muni aukast á næstu árum, enda séu áætlanir uppi í Noregi um að margfalda laxeldi. Á sama tíma hafa vísindamenn alþjóðlegra eftirlitsstofnana með fiskveiðum kallað eftir helmings samdrætti í veiðum á fiski í dýrafóður. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum eru 57% fiskstofna heimshafanna fullnýttir og 30% ofveiddir. Aðeins 13% eru ekki fullnýttir og hefur sú tala lækkað úr 40% árið 1974. Því meira, sem framleitt verður af eldisfiski, því minna verður til skiptana úr stofnum heimshafanna. Þannig er ódýr fiskur notaður til að framleiða rándýran fisk, sem ekki er á færi fátækra þjóða að kaupa. Ísland er eitt fárra landa, sem nýtir fiskstofna, sem ekki eru ofveiddir. Það kann að vera spennandi kostur fyrir erlenda laxeldismenn.
Íslenski villti laxinn er einstök auðlind, sem auðvelt er að tortíma með erfðamengun og sjúkdómum. Menn verða að velta því fyrir sér hvort áhættan sé þess virði, einkum þegar fjármagnið kemur frá erlendum fyrirtækjum, sem vilja komast á nýjar ókeypis eldislendur sakir hárra leyfisgjalda og aukinna erfiðleika í heimalandinu vegna erfðamengunar, óþrifa og eyðingar á villtum lax- og silungastofnum.
Íslenskir stjórnmálamenn hafa lítinn gaum gefið fyrirætlunum um eldi á norskum laxi í íslenskum fjörðum og hugsanlegum afleiðingum. Einn ráðherra hefur þó tekið af skarið fyrir sitt leyti. Aðrir mættu huga betur að málinu og taka stjórnvöld í Alaska sér til fyrirmyndar, en þau hafa bannað með öllu laxeldi í sjó. Lágmarkskrafa til stjórnmálamanna og Alþingis er, að undinn verði bráður bugur að frágangi sérstakrar lagasetningar, sem bannar laxeldi í sjó við Ísland með erlendum og framandi kynbættum laxastofni og leyfi sjókvíaeldi, aðeins með geldfiski.
Heimildir:
Mbl. Viðtal við Bjarna Benediktsson 17. júlí 2016.
Fiskifréttir 11.febrúar. 2016.
FAO – World Fish Catch.
Umsögn Alþjóða hafrannsóknaráðsins, 31. maí 2016.
Athugasemdir við tillögu að matsáætlun vegna sjókvíaeldis í Berufirði frá 27. júlí 2016.
Samþykkt aðalfundar Veiðifélags Breiðdæla 8. júní 2016.
Ályktun Landssambands veiðifélaga 28. júlí 2016.
Viðtal norska blaðamannsins Aslak Berge, Ilaks, við Höskuld Steinarsson, framkv.stj. Landssambands fiskeldisstöðva, júlí 2016.
Greinargerð frá fundi ALTA, Wild Salmon Conference, febrúar 2016.
Viðtal við Torbjörn Forseth, oddvita Vitenskapelig raad for lakseforvaltning, í Adresseavisen 28. júní 2016.
Kanadíska ritið Salmon Confidential: The ugly truth about Canada´s open-net salmon farms.