Það vakti athygli í síðustu viku að einungis 16 manns sóttust eftir sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fyrir næstu kosningar, en frestur til að skila inn framboði rann út síðdegis á föstudag. Fyrir kosningarnar 2013 sóttust 19 eftir því að komast á listann.
Ástæða þess að þetta vakti athygli er að miðað við stöðu skoðanakannana þá getur flokkurinn búist við því að fá þau sex þingsæti sem hann hefur nú þegar í höfuðborginni. Í nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist flokkurinn með 25,4 prósent fylgi, sem er aðeins minna en hann fékk 2013.
Lengi hefur verið ljóst að erfitt yrði fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fara með núverandi leiðtoga Reykjavíkurkjördæmanna tveggja inn í næstu kosningar. Bæði Illugi Gunnarsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir urðu andlag slíkra hneykslismála á kjörtímabilinu að þau myndu alltaf stórskaða þau, og flokkinn, í kosningabaráttu. Þar er átt við hið svokallaða Orku Energy-mál Illuga og lekamál Hönnu Birnu. Þau hafa enda bæði ákveðið að draga sig í hlé.
Viðbúið er að Ólöf Nordal og Guðlaugur Þór Þórðarson, sem bæði eru vel þekktar pólitískar stærðir, taki við hlutverkum þeirra. Í ljósi þess hefði mátt ætla að fleiri Sjálfstæðismenn hefðu séð tækifæri til pólitískra áhrifa í ljós þess að fyrirferðar- og áhrifamiklir leiðtogar eru að hverfa á brott. Svo er hins vegar ekki.
Ljóst má vera að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, muni skipa forystusveit flokksins í kosningunum. Auk hennar sækjast fimm þingmenn eftir sæti, en auk Ólafar og Guðlaugs Þórs eru það Birgir Ármannsson, Sigríður Andersen og Brynjar Níelsson.
Hljóti þau öll brautargengi verður lítið um endurnýjun hjá stærstu stjórnmálalegu fjöldahreyfingu landsins á lista hennar í höfuðborginni fyrir kosningarnar í október.