Fyrstu vikuna í september næstkomandi, dagana 2. og 3/9, verður Fundur fólksins haldinn í Vatnsmýrinni. Fundur fólksins er nýr vinkill á samfélagsmál á Íslandi og er þetta í annað skiptið sem þessi hátíð er haldin. Já, þetta reyndar kallað lýðræðishátíð, því eitt af markiðunum er að auka á lýðræðisleg umræðu og lýðræðislegt samtal í landinu. Og gera það með nýstárlegum hætti. Fyrirmyndin er sótt (eins og í mörgu öðru hér á landi) til Norðurlandanna, þar sem uppákomur sem þessar fá mikla athygli.
Í Vatnsmýrinni verður þessa helgina sett upp einskonar tjaldborg eða tjaldtorg, þar sem hin ýmsu samtök og hagsmunaaðilar munum kynna starfsemi sína og efna til samræðu og umræðu við almenning. Forsvarsmenn Fundar fólksins auglýsa viðburðinn þannig að þar séu fulltrúar ,,þriðja geirans“ í samfélagsins á ferðinni. Það má skilja sem fulltrúar almannageirans, til aðgreiningar frá opinbera geiranum og einkageiranum.
Það má kannski segja að hér sé kominn tilraun til þess að efla lýðræðið í landinu, en allir vita jú í hvaða kreppu það er. Frá Hruninu 2008 hefur traust almenning til stjórnmálanna hrapað og umræðan einkennst af skotgrafastellingum og mjög mikill neikvæðni. Þessu þarf að breyta og er ástandið í raun óboðlegt alvöru lýðræðisríki.
Stjórnmálaflokkurinn Dögun er einn þeirra aðila sem verður með á Fundi fólksins. Einkunnarorð Dögunar eru réttlæti, lýðræði og sanngirni. Dögun mun líka bjóða fram í næstu alþingiskosningum, sem fara eiga fram þann 29.október næstkomandi.
Flokkurinn hefur upp á að bjóða róttækar umbótahugmyndir á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Má þar til dæmis nefna hugmyndina um samfélagsbanka, sem flokkurinn kynnti fyrstur flokka og aðrir flokkar úr röðum gamla lúna fjórflokksins hafa ,,afritað“ inn í sína stefnuskrá. Nefnum engin nöfn, en kómískt er það.
Þá er Dögun einnig með róttækar umbótahugmyndir í sambandi við fjármálakerfið, kvótakerfið og lífeyrismál. Í sambandi við heilbrigðismálin leggur Dögun áherslu á að sú þjónusta verði fyrir alla, óháð tekjum og búsetu. Við viljum vinda ofan af kostnaðarþátttöku notenda heilbrigðiskerfisins, sem er orðin yfirgengileg. Slíkt ástand gengur ekki og að sjálfsögðu spyr fólk sig; í hvað fara skattarnir?
Dögun vill auka beint lýðræði og fara að vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu, sem kom skýrt fram á sínum tíma, þ.e. að þjóðin setji sér nýja stjórnarskrá. Loforð um umbætur á því sviði voru svikin af Sjálfstæðisflokki og Framsókn, enda byggja þessir flokkar tilveru sína á að vernda sérhagsmuni, en ekki almannahagsmuni.
Um þessi atriði og heildarstefnu Dögunar má lesa á heimasíðu flokksins, www.xdogun.is Hvet ég þig lesandi góður til að gera það.
Þáttur fjölmiðla í Fundi fólksins er mikilvægur til þess að skapa umræðu og koma henni á framfæri. Einn þeirra fjölmiðla sem mun taka þátt í Fundi fólksins, er einmitt Kjarninn, þar sem þú, kæri lesandi, ert að lesa þessi orð. Verður spennandi að fylgjast með framvindu Fundar fólksins hér á vefsíðu Kjarnans og öðrum miðlum.
Að lokum vil ég hvetja þig sem lest þessi orð að kynna þér Fund fólksins á vefnum og ekki síður til að taka þátt. Þitt framlag er mikilvægt til þess að snúa íslensku lýðræði til betri vegar, því það er hægt.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og gjaldkeri Dögunar.