Þó að, með því að gefa kost á mér í eitt af efstu sætunum í komandi prófkjöri VG, sé ég í raun að sækja um innivinnu í miðbæ Reykjavíkur, þá eru það málefni landsbyggðarinnar sem mest brenna á mér. Betri samgöngur, betra heilbrigðiskerfi og ljósleiðari hringinn í kringum landið eru þau mál sem ég vil setja í algjöran forgang. Þetta eru málefni landsbyggðarinnar ekki síður en höfuðborgarsvæðisins.
Í umræðunni um nýtt hátæknisjúkrahús í Reykjavík gleymist stundum að það eitt og sér leysir ekki allan vanda. Fólk heldur áfram að veikjast á landsbyggðinni og sama hversu hátæknilegt hátæknisjúkrahúsið er þá þarf að vera hægt að veita fólki lágmarks aðhlynningu í hverju byggðarlagi. Að sjálfsögðu verður nýja sjúkrahúsið kærkomið fyrir alla landsmenn og verður sjúkrahús allra Íslendinga. Fólk á hinsvegar ekki eftir að fara þangað frá Fáskrúðsfirði vegna fingurbrots eða frá Tálknafirði vegna tábrots. Það má ekki gleyma nærþjónustunni sem er alveg jafn nauðsynleg. Í mínum heimabæ er staðan þannig núna að loks þegar maður kemst að hjá lækni þá eru miklar líkur á að maður sé búinn að gleyma hvað var að manni. Hér er úrbúta þörf.
Það er líka verulegra úrbóta þörf í vegamálum í Norðvesturkjördæmi sérstaklega. Slystatíðni er há á vegum á Vestfjörðum og Vesturlandi, sérstaklega og sumstaðar standa lélegir vegir atvínnulífinu fyrir þrifum hreinlega, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum.
Varðandi uppbyggingu í vegamálum á kerfið að vera einfalt og leiðinlegt! Einfalt að því leyti að forgangsröðun að ráðast af þörf og nauðsyn en ekki af því að maður þekki mann. (Þingmann). Leiðinlegt fyrir pólitíkusana að því leyti að þeir fái ekki að ráðskast með malbiksmetra eftir því hvar ber best í atkvæðaveiði.
Í allri umræðunni um að það þurfi með einhverjum ráðum að fá unga fólkið aftur heim í hinar dreifðu byggðir þá gleymist stundum að þar er bara fullt af ungu fólki nú þegar. Fólk sem er á fullu að byggja upp sína framtíð. Ungt fólk sem hefur tekið við af næstu kynslóð eða er að búa sér til sín eigin tækifæri bara með sínum hæfileikum og þekkingu. Almennilegar vegasamgöngur eru meðal þess sem þarf til að ungt fólk vilji áfram búa á landsbyggðinni. Líka það sem þarf til að ungt fólk vilji flytja út á land.
Rafrænar samgöngur skipta ekki minna máli. Ekki síst fyrir ungt fólk. Góðar nettenginar skipta orðið máli í nánast hverju sem þú tekur þér fyrir hendur. Í ferðaþjónustu, fiskvinnslu, landbúnaði, iðnaði hverskonar, menntastofnunum og skapandi greinum, svo dæmi séu tekin er nauðsynlegt að hafa aðgeng að góðri nettengingu.
Það eru bullandi sóknarfæri núna fyrir landsbyggðina. Víðast hvar á landsbyggðinni er næg atvinna og jafnvel ríflega það. Fjölskylduvænt umhverfi, nálægð við náttúruna, allt (allavega flest) við hendina og minna stress og læti eru meðal búsetukosta sem landsbyggðin getur boðið upp á. En til að landsbyggðin sé samkeppnisfær við höfuðborgarsvæðið um íbúa þá þarf að vera hægt að bjóða upp á góða heilbrigðisþjónustu, akfæra vegi og ljósleiðara.
Ég vil að ungt fólk eigi val um hvar það býr í framtíðinni.
Höfundur gefur kost á sér í 1. – 3. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi.