Mikil spenna er nú á hinu pólitíska sviði í Bandaríkjunum þar sem Donald J. Trump og Hillary Clinton berjast um forsetaembættið, en kosið verður í nóvember. Hillary mælist með töluvert meira fylgi þessa dagana, en margt getur breyst á skömmum tíma í stjórnmálum, eins og oft hefur sannast.
Eitt af því sem gerir baráttuna nú merkilega, eru ásakanir um að Rússar séu beint að skipta sér af kosningunum með tölvuinnbrotum. Margir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa fullyrt þetta, meðal annars fjallaði Thomas Ricks, einn virtasti blaðamaður Washington Post, um netárásir Rússa á Demókrata, sem flokkurinn staðfesti að hefðu átt sér stað.
Í umfjöllun BBC í gær kemur fram margt bendi til þess að Rússar séu komnir í netárásarstríð gegn Bandaríkjunum, en bandarísk stjórnvöld hafa þó ekki staðfest neitt í þá veru ennþá.
Þetta verða að teljast ótrúleg tíðindi, og sýnir glögglega að vígvöllur í stríðum framtíðarinnar er ekki síst þar sem verðmæt gögn er að finna.