Í vikunni lagði ég, ásamt fleiri þingmönnum, til að grunnskólalögum verði breytt þannig að ákvæði um að opinberum aðilum sé „ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír“ verði fellt niður.
Nú er það svo að við Íslendingar höfum fest í lög Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þessi samningur markaði mikil tímamót í baráttunni fyrir réttindum barna.
Barnasáttmálinn leggur m.a. þær skyldur á stjórnvöld að grípa til aðgerða til að tryggja velferð barna, m.a. á sviði menntamála og í 28 gr. samningsins segir að börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds.
Í skýrslu Unicef um stöðu barna á Íslandi sem birt var í febrúar síðastliðnum kom fram að hlutfall þeirra barna sem líða skort á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009. Gera má ráð fyrir að rúmlega 6.000 börn líði efnislegan skort hér á landi og af þeim þola tæplega 1.600 börn verulegan skort. Hlutfall barna sem líða verulegan skort hefur þrefaldast frá árinu 2009 og er nú 2,4%.
Á bak við allar þessar tölur eru börn af holdi og blóði, með tilfinningar, væntingar og metnað og löngun til að fá tækifæri í lífinu og verða hamingjusamt fólk.
Er það ásættanlegt í velmegunarsamfélaginu okkar að meira en 6.000 börn skuli lifa við skort á efnislegum gæðum og þola alvarlega mismunun?
Nei, að sjálfsögðu ekki.
Það er okkur til skammar að hér á landi skuli vera börn sem fara ekki aðeins á mis við tækifæri sem félagar þeirra fá og finnst sjálfsögð til að stunda félagslíf og íþróttir, læra á hljóðfæri, fara í ferðalög, þroskast og njóta lífsins, heldur börn sem vegna fátæktar fá ekki viðunandi næringu, búa í vondu og óöruggu húsnæði og klæðast lélegum fötum.
Og það er augljóst að þessi börn hafa ekki sömu tækifæri til þess að kaupa sér þau námsgögn sem þeim eru nauðsynleg til þess að geta stundað skólann af reisn, eins og önnur börn.
Þess vegna er svo mikilvægt að grunnskólalögum verði breytt þannig að tryggt verði börn sem búa við bágan efnahag fái örugglega öll þau námsgögn sem þau þurfa. Annars er augljóslega mikil hætta á að þau fái ekki sömu tækifæri til náms og önnur börn og viðhorf þeirra til skólans verði neikvæð.
Ég er sannfærður um að íslenska þjóðin er einhuga um að reyna að koma í veg fyrir það og vill að það verði tryggt með lögum.
Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.