Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að lækka meginvexti bankans um 0,5 prósentustig, úr 5,75 prósent í 5,25 prósent. Þessum tíðindum var vel tekið á markaði, svo mikið er víst. Öll hlutafélögin í kauphöllinni hækkuðu mikið, flest á bilinu 2 til 4 prósent.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í viðtali við RÚV, að peningastefnan og framkvæmd hennar hefði átt sinn hlut í því, að verðbólga hefur haldist langt fyrir neðan spár bankans undanfarið ár eða svo, en hún mælist nú 1,1 prósent. Hann útskýrði ekki nákvæmlega hvernig peningastefnan átti að hafa haldið verðbólgu niðri.
Það sem hefur haldið verðbólgu niðri á Ísland hefur lítið sem ekkert með vaxtastefnu seðlabankans að gera, heldur tengist sú staða öðru fremur því, að hrávöruverð í heiminum, einkum á olíu, hefur lækkað og haldist lágt, sem síðan hefur áhrif á verðlag á innfluttum vörum. Samhliða hefur svo styrking krónunnar, meðal annars vegna mikils gjaldeyrisinnstreymis frá ferðamönnum, einnig leitt til lægra verðlags, en seðlabankinn hefur unnið gegn frekari styrkingu á krónunni með inngripum á gjaldeyrismarkaði. Það eina sem heldur lífi í verðbólgunni er mikil og ör hækkun á húsnæðisverði, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Undirliggjandi eru síðan lögbundin fjármagnshöft.
Már hefði alveg mátt minnast á þessi atriði, fremur en að reyna að réttlæta alltof hátt vaxtastig í landinu, miðað við verðbólgu, í langan tíma.