Páll heitinn Skúlason kvaddi okkur með þeirri ábendingu að við Íslendingar hefðum „ekki enn yfirvegað að neinu ráði þýðingu náttúrunnar fyrir okkur og fyrir þróun mannlífs í landinu í framtíðinni“ . Hann sagði þetta í erindi sem síðan var birt í hans síðustu bók. Hann bætti við því sem sumum finnst augljóst: „Við höfum verið upptekin af því að tileinka okkur alls kyns nýja tækni en ekki hugsað út í það að sama skapi hvaða áhrif ýmsar framkvæmdir okkar hafa á umhverfið og náttúruna“.
Skáld og fræðimenn hafa á síðustu öldum bent okkur á fjársjóðinn sem falinn er í ósnertum víðernum landsins, og lýst lífskraftinum sem finna má inn til heiða og upp til fjalla. Jafnvel einstaka stjórnmálaleiðtogar hafa bent á að ómengað loft og vatn og óspillt fagurt umhverfi séu náttúrugæði, eigi síður en þau sem í daglegu tali séu nefndar auðlindir. Oft hefur reynst erfitt að sannfæra ráðandi öfl um að meta óáþreifanleg náttúrugæði að verðleikum. Stundum hefur þurft örþrifaráð fólks á borð við Sigríði í Brattholti eða bændur við Mývatn til að forða náttúrugæðum landsins frá tjóni. Framkvæmdagleðin við virkjun náttúruauðlinda hefur oft haft yfirhöndina, sóknin í að efla ætlaða efnahagslega hagsæld landsmanna hefur ráðið för, jafnvel á viðkvæmum og dýrmætum svæðum. Svo virðist sem þeirri framkvæmdasókn sé langt í frá lokið, a.m.k. á meðan menn taka alvarlega hugmyndir um streyma rafmagni til Evrópu í gegnum sæstreng, sem kallar á byltingarkenndar virkjanir orkuauðlindanna í landinu, án sýnilegs ávinnings fyrir fólkið í landinu, eins og lesa má út úr nýlegri ráðherraskýrslu. Enn er því hart tekist á um auðlindamatið.
Margt bendir þó til að náttúruvernd eigi vaxandi fylgis að fagna meðal almennings. Endurteknar kannanir sýna að 60% landsmanna séu hlynntir því að miðhálendi landsins verði friðlýst. Friðlýsing þýðir þó ekki að allar framkvæmdir verði bannaðar innan marka svæðisskipulags miðhálendisins, jafnvel ekki virkjunarframkvæmdir. En hún þýðir væntanlega að allar framkvæmdir verði metnar í ljósi friðlýsingarinnar; leitast verði við að ganga ekki á þau áþreifanlegu og óáþreifanlegu verðmæti sem felast í hinum ósnortnu víðernum landsins.
Fjölgun erlendra ferðamanna og vaxandi mikilvægi ferðaþjónustu í hagkerfinu (atvinnan, þjóðartekjurnar og gjaldeyrissjóðirnir sem verða til), ýta undir þessa þróun, því kannanir sýna að tæplega 90% ferðamanna leggja mikið upp úr ósnortnum víðernum í ferðum sínum til Íslands. En nánar um það síðar.
Vindmyllugarðar á hálendið
Nú bregður aftur á móti svo við að Landsvirkjun, orkufyrirtæki allra landsmanna, hefur útfært áform um að byggja áberandi vindmyllugarða á jaðri hálendisins. Þetta eru ekki nein minniháttar mannvirki, heldur rísa þau upp úr landinu í hæð sem jafngildir tveimur Hallgrímskirkjuturnum (135 metra). Vindmyllurnar verða því áberandi í landslaginu, hafa áhrif á fuglalíf og munu gera vindmyllu-ýlfur að einkennishljóði í stað fuglasöngs á þessum hálendisheiðum. Einn slíkur garður, svonefndur Blöndulundur, hefur af verkefnastjórn Rammaáætlunar, þegar verið settur í orkunýtingarflokk á Auðkúluheiði fyrir norðan, en annar, við Búrfellsháls á suðurlandi, í biðflokk. Þessi áform hafa siglt nokkuð hljóðlega í gegnum kerfið. Kannast einhver við almenna umræðu um þörfina fyrir þessi mannvirki og sérstaklega um staðarval þeirra?
Myndin sem hér fylgir með, og er samsett af Birgi Ingimarssyni grafiker, gefur vísbendingu um hvers konar mannvirki er um að ræða og hvernig þau koma til með að líta út í umhverfinu. Myllurnar hafa verið settar inn á mynd af Auðkúluheiði, við Friðmundarvötn, þar sem Blöndulundur mun eiga að standa. Vinstra megin á myndinni, á Kjalveginum, má sjá meðalstóranfólksbíl, jeppling—hæð myllanna jafngildir súlu með 81 slíkum bíl, staflað beint upp í loftið. Hæðin jafngildir tveimur Hallgrímskirkjuturnum. Það liggur í augum uppi að mannvirki af þessari stærðargráðu munu gjörbreyta hinu sýnilega landslagi og byrgja sýn til fjalla og jökla.
Stærstu umhverfisáhrifin af slíkum mannvirkjum eru einmitt sjónmengunin. Þessi risavöxnu stálmöstur og spaðar yrðu áberandi í nær hvaða landslagi sem er—samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar munu myllurnar á Auðkúluheiði sjást í tuga kílómetra fjarlægð. Þessum manngerðu ferlíkjum er gjarnan erlendis, þar sem þau hafa verið reist, lýst sem yfirþyrmandi fleini í fallegu landslagi. Auðvelt er að fletta upp slíkri gagnrýni. En sjónmengunin er ekki það eina. Hljóðmengun og skaði á gróður- og dýralífi eru önnur viðurkennd umhverfisáhrif—myllurnar munu rjúfa fjallakyrrðina, yfirgnæfa náttúruleg hljóð, s.s. fuglasöng, og þær munu ógna dýralífinu í nágrenninu—reyndar eru rannsóknir Landsvirkjunar á þessum þáttum á Auðkúluheiði af skornum skammti; ekki liggja fyrir gróðurkort af öllu næsta nágrenni; mat á fugladauða, t.d. vegna reglubundins flugs gæsa á þessum slóðum, er yfirborðskennt, svo ekki sé meira sagt. Heildaráhrif mannvirkjanna á umhverfið yrðu geysimikil, meiri en af mörgum vatnsvirkjunarmannvirkjum, sem reynt hefur verið að fella að því landslagi sem fyrir var—þau lenda ekki aðeins á okkur núlifandi, heldur einnig á komandi kynslóðum, því fjárfestingaráætlanir af þessari stærð eru ekki gerðar til skamms tíma
Staðarvalið: inn á landi, utan við strönd?
Staðsetning væntanlegra vindmylla er lykilatriði. Landsvirkjun hefur valið að setja myllurnar niður í nágrenni við eldri vatnsaflsvirkjanir fyrirtækisins, með þeim rökum að þannig sé hægt að nýta „innviði“ virkjananna, en hér er líklega átt við línur, tengivirki og vegi. Engir útreikningar hafa verið lagðir fram til að styðja með þetta staðarval. Háspennulínur frá þessum eldri virkjunum eru þegar ófullnægjandi og óleystur vandi við að styrkja þær. Ekki hefur verið hægt að stækka Blönduvirkjun með hagstæðri rennslisvirkjun, sem er á teikniborðinu, vegna þess að Blöndulína annar ekki flutningi raforkunnar. Engin sátt er við hagsmunaaðila um viðbætur. Ekki verður af lestri skýrslna annað séð en að vindgarðarnir þurfi á sérstökum línum, spennuvirkjum og vegum að halda. Getur verið að hagkvæmnin sé aukin með því, eins og stundum áður, að landið og umhverfisáhrifin eru ekki verðlögð?
Víða erlendis vilja menn ekki lengur fórna landi undir vindmyllur og byggja þær frekar úti á sjó. Nefna má Danmörk, Bretland og Bandaríkin. Við strendur Skotlands er nú unnið að tólf vindmylluverkefnum. Eigum við meira land aflögu en aðrir? Gerðar hafa verið tilraunir með að setja sjávarstraumatúrbínur á stöpla vindmylla í sjó. Á vindakorti Veðurstofunnar (svonefndum vindatlas) má sjá að víða um land, og við strendur landsins, er veðurhæð svipuð eða nægjanleg fyrir slíkan rekstur, þannig að hún ræður ekki úrslitum um staðsetningu. Orka tapast enn fremur í flutningi orku um langar leiðir. Hlýtur ekki að vera hagstæðara að byggja vindmyllugarða í nágrenni verksmiðja eða byggðakjarna sem munu nota rafmagnið?
Einn stærsti gallinn við áform Landsvirkjunar, svo og við afgreiðslu vindmyllugarðanna í rammaáætlun, er sú staðreynd að í þau vantar allan samanburð á byggingarstöðum. Verkefnastjórn rammaáætlunar metur einungis þær hugmyndir sem orkufyrirtækin leggja fram. Hún ætti að krefjast sérstaks samanburðar og rökstuðnings fyrir staðarvalinu, að teknu tilliti til allra áhrifaþátta. Má vel vera, ef málið væri skoðað í víðara samhengi, að grynningar við Skaga, Langanes og Reykjanes, eða staðir í eða við eyjar við ströndina, svo einhverjir séu nefndir, kæmu til greina. Eða jafnvel staðir nær stærstu byggðarkjörnunum, þar sem umhverfi hefur þegar verið breytt með háum mannvirkjum.
Vindmyllur hafa orðið vinsælli kostur á Vesturlöndum á síðustu árum en þær voru áður. Tækninni við að búa þær til og setja þær niður hefur fleygt fram. Þær hafa notið góðs af umræðunni um loftslagsbreytingar, sem hefur „skapað jákvæðari viðhorf til endurnýjanlegra orkugjafa“ (Verkefnastjórn rammaáætlunar, 2016). Þær geta í sjálfu sér verið álitlegur, vistvænn orkukostur og búið til umtalsvert magn af rafmagni; í áætlunum Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að hver vindmylla muni skila 2,5-3,5 MW afli, sem þýðir 100 MW fyrir 40 vindmyllur á Auðkúluheiði og 200 MW fyrir 80 vindmyllur við Búrfellsháls. Í Wikinger-verkefninu við strönd Þýskalands í Norðursjó er gert ráð fyrir 350 MW afli úr 70 vindmyllum, sem fullnægi þörfum um 350 þúsund þýskra heimila. Til samanburðar eru heimili á Íslandi tæplega 100 þúsund talsins. Nokkrir tugir vindmylla geta því svo sannarlega mætt auknum orkuþörfum íslenskra heimila, rafmagni á bílana og fleira, næstu áratugina. Ætti það ekki að verða efst á blaði að mæta nýjum þörfum heimilanna og minnka notkun þeirra á innfluttum orkugjöfum? Og miða staðsetningu mannvirkjanna við það.
Ógn við upplifun ferðamannsins
Flest bendir til að stærsta aðdráttaraflið í ferðaþjónustunni muni um ókomin ár verða hin ósnortnu víðerni landsins. Eins og verkefnastjórn rammaáætlunar bendir á (2016) þá er söluvara ferðaþjónustunnar „fjölbreytt, einstök og óspillt náttúra sem er takmörkuð auðlind í heimlandi þeirra ferðamanna sem hingað koma. Eftirspurn eftir slíku umhverfi á eftir að aukast á næstu áratugum og þar með einnig verðmæti slíka svæða (Ritchie & Crouch, 2005). Ef ferðaþjónustan á að geta haldið áfram að vaxa sem atvinnugrein hér á landi mun hún þurfa aukið landrými og ef greinin á áfram að höfða til þeirra markhópa sem hún hefur mesta hlutfallslega yfirburði gagnvart, þarf hún aðgang að landgæðum sem einkennast af óspilltri náttúru“. Framkomnar hugmyndir um vindmyllugarða á hálendisheiðum eru bein ógn við viðgang ferðaþjónustunnar í landinu.
Um 200 þúsund Íslendingar, eða um 64% landsmanna, hafa þegar farið Kjalveg (Rögnvaldur Guðmundsson, 2015). Varla er ástæða til að ætla að komandi kynslóðir vilji fara þessa leið í minna mæli. Kjalvegur verður eflaust áfram mikilvæg leið Íslendinga sem vilja kynnast landinu öllu. Með lagfæringum, sem eru á dagskrá, má ætla að hann verði alla framtíð ein helsta samgönguæðin um hálendið. Hann verður lykilleið í að dreifa ferðafólki betur um landið en hingað til, t.d. til Norðurlands og frá fjölförnustu hálendisleiðunum á Suðurlandi, sem er orðið mjög brýnt að takist, þegar stefnir í að erlendir ferðamenn verði tvær milljónir talsins. Það breytir ásýnd hálendisins í grundvallaratriðum, og um leið upplifun ferðamanna, ef þar verður að finna tröllslegar vindmyllur sem skyggja á útsýnið og brengla náttúruskoðunina með ýmsum hætti.
Ekki er flas til fagnaðar
Þegar á allt er litið er erfitt að skilja hvers vegna liggur svo mikið á við að undirbúa stóra vindmyllugarða á hálendi landsins. Mörgum spurningum er ósvarað og samhengi þarfa, notkunar, framkvæmdakostnaðar, efnahagsáhrifa og umhverfisáhrifa hafi ekki verið nægilega rannsakað. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur sett Blöndulund í orkunýtingarflokk þó hún viðurkenni í skýrslu sinni að „öll reiknuð og sýnd umhverfisáhrif á kortum ... gefa ekki endanlega mynd af sjónrænum áhrifum og hljóðvist vegna Blöndulundar þar sem endanlegar staðsetningar og tegund vindmylla hefur ekki verið ákveðin“. Eins og fram hefur komið var skýrsla verkefnisstjórar unnin á mettíma; stuttur frestur er gefinn til að gera athugasemdir. Hafa áhrifin á ferðamennsku, sem veitt hefur stórauknu lífi í bæi og sveitir landsins á síðustu árum, verið metnir með fullnægjandi hætti? Sitjandi utanríkisráðherra hefur lýst efasemdum sínum um að við getum í ferðaþjónustunni haldið áfram að eiga kökuna og éta hana sjálf, gert t.d. út á hvalaskoðun og veitt hvali á sama tíma. Erum við tilbúin að fórna heiðanna ró fyrir rafmagn sem ekki er einu sinni ljóst hvernig hægt er að flytja út af virkjunarsvæðinu? Ef brýn þörf reynist fyrir virkjun vindorku eru aðrir staðir, jafnvel fyrir utan ströndina og nær væntanlegum nýtingaraðilum, eftirsóknarverðari en hálendisheiðar, líkt og mörg önnur lönd hafa uppgötvað. Ekki er flas til fagnaðar, síst þegar um stór umhverfismál er að tefla.