Atburðarásin sem Panamalekinn hratt af stað í íslensku samfélagi fyrr á þessu ári er merkileg fyrir margra hluta sakir. Opinberanir á tengslum ráðamanna við aflandsfélög leiddu til fáheyrðra afsagna úr mikilvægum valdastöðum og leiðtogar ríkisstjórnarinnar fundu sig knúna til þess að lofa almenningi snemmbúnum kosningum.
En atburðarásin segir merkilega hluti um samtímann einmitt líka vegna þess hve almenningur hafði mikil áhrif á hana. Líkt og hrunveturinn 2008-2009 léku fjöldamótmæli veigamikið hlutverk í valdatafli stjórnmálanna. Sunnudagskvöldið 3. apríl, eftir umfjöllun Kastljóss um eignarhaldsfélagið Wintris, fór boðuðum komum á Facebook á mótmæli undir yfirskriftinni „Kosningar strax“ sem halda átti daginn eftir að fjölga gríðarlega. Væntingar um stærð mótmælanna urðu svo miklar að erlent fjölmiðlafólk flykktist til landsins til þess að fylgjast með. Svo fór að lærdómur þjóðarinnar úr Búsáhaldabyltingunni, að fjöldamótmæli geti fellt ríkisstjórn, virkjaði þúsundir til þess að taka þátt í mótmælum mánudaginn 4. apríl. Mótmælin, sem skipuleggjendur sögðu ein þau stærstu sem átt hefðu sér stað hérlendis, sköpuðu bersýnilega titring í stjórnarsamstarfinu. Daginn eftir mótmælin fylgdist þjóðin með beinni útsendingu af seinustu augnablikum þáverandi forsætisráðherra í starfi. En þótt ráðherrann hafi vikið strax drifu væntingar um að mótmæli geti fellt ríkisstjórn dagleg (en æ fámennari) mótmæli næstu vikurnar.
Þótt þessi saga sé kunn hefur túlkun atburðanna liðið fyrir skort á staðreyndum. Tölur um fjölda mótmælenda hafa verið á reiki og hlutlæg gögn um markmið „venjulegra“ mótmælenda hafa ekki legið fyrir. Fyrir utan nokkur fréttaviðtöl er ekki vitað fyrir víst af hverju allt þetta fólk mætti til að mótmæla. Var um að ræða tímabundna reiði vegna framgöngu þáverandi forsætisráðherra og samráðherra hans? Eða voru hugðarefni þátttakenda djúpstæðari og „stærri“ en framganga nokkurra ráðherra? Með öðrum orðum: var óánægjan sem dreif þúsundir almennra borgara niður á Austurvöll í aprílmánuði síðastliðnum tímabundin – eða er um að ræða viðvarandi óánægju í samfélaginu sem leitt gæti til meiri mótmæla í framtíðinni?
Könnun á mótmælaþátttöku
Stuttu eftir að mótmælin hófust í vor fékk undirritaður Félagsvísindastofnun HÍ til þess að framkvæma netkönnun meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins (18 ára og eldri) á mótmælaþátttöku. Könnunin fór fram á tímabilinu 13. apríl til 4. maí og reyndist svörun ásættanleg (63%), um 1000 manns svöruðu könnuninni.
Svarendur voru spurðir um hvort þeir hefðu tekið þátt í tveimur stærstu mótmælaviðburðunum, mánudagsmótmælunum 4. apríl og laugardagsmótmælunum 9. apríl. Tafla 1 sýnir 23% þátttöku í mánudagsmótmælunum 4. apríl (daginn eftir Kastljósþáttinn). Miðað við þá niðurstöðu væri áætlaður fjöldi mótmælenda um 35 þúsund manns. En sú tala er líklega ofmat. Rannsóknir hafa bent til þess þeir sem áhuga hafi á stjórnmálum taki frekar þátt í netkönnunum en þeir sem minni áhuga hafa. Þess vegna er líklega minna um mótmælendur í hópi þeirra sem ekki svöruðu könnuninni. Neðri röð í töflu birtir leiðrétt mat sem gerir ráð fyrir að könnunin ofmeti mótmælaþátttöku umtalsvert (þ.e. um þriðjung). Þessi niðurstaða bendir til þess að þátttakan hafi verið um 17% af íbúum höfuðborgarsvæðis (18 ára og eldri). Svo virðist sem talning þeirra sem skipulögðu mótmælin hafi því verið nærri lagi; ekki færri en 26 þúsund manns virðast hafa tekið þátt í mánudagsmótmælunum 4. apríl.
Fjöldi þátttakenda í laugardagsmótmælunum 9. apríl virðist líka vera mjög nálægt talningu skipuleggjenda mótmælanna. Leiðrétta matið fyrir þátttöku í þeim mótmælum er um 10% eða 15 þúsund manns.
Mikilvægt er að árétta að aðferðin við að leiðrétta svarbjögun eyðir ekki óvissu um nákvæman fjölda þátttakenda. Bjögunin er óþekkt og kanna þarf þátttökuna með fleiri aðferðum (t.d. með símakönnun) til þess að staðfesta þessar niðurstöður. Ólíklegt er þó að miklu muni og því ljóst að þátttakan í þessum tveimur viðburðum var afar mikil á íslenskan mælikvarða.
Þótt fjölmiðlar hafi ekki alltaf fylgst vel með voru mótmæli á Austurvelli daglegur viðburður í aprílmánuði og fram í maí, en sífellt fækkaði í hópi mótmælenda. Svarendur voru spurðir hvort þeir hefðu mætt í einhvern af þessum mótmælaviðburðum. Leiðrétta matið lengst til hægri í töflu 1 (neðri röð) bendir til þess að um 22% íbúa höfuðborgarsvæðis hafi mætt í mótmæli á tímabilinu (um 33 þúsund manns). Gögnin eins og þau eru kynnt hér gera þó ekki greinarmun á eðli þátttökunnar; margir mæta aðeins í stutta stund á mótmælaviðburð en aðrir standa vaktina allan tímann.
Athygli vekur að heildarþátttakan í mótmælahrinunni í apríl virðist vera á pari við þátttökuna í Búsáhaldabyltingunni (kannanir hafa bent til þess að um fjórðungur íbúa höfuðborgarsvæðis hafi tekið einhvern þátt í þeirri mótmælahrinu).
Tafla 1. Mat á þátttöku íbúa höfuðborgarsvæðis í mótmælum á Austurvelli sl. vor
Skýringar: Niðurstöður í töflu byggjast á svörum 1001 íbúa á höfuðborgarsvæðis. Allar niðurstöður eru vegnar með tilliti til aldurs og menntunar. Fjöldi mótmælenda er áætlaður með því að miða við fjölda skráðra íbúa höfuðborgarsvæðis á aldrinum 19-80 ára (um 152.000). Í neðri röð í töflu er gert ráð fyrir því að könnunin ofmeti mótmælaþátttöku um 33 prósent (vegna þess að svarendur í netkönnunum hafa meiri stjórnmálaáhuga en aðrir).
Ástæður mótmælaþátttöku
Svarendur sem sögðust hafa tekið þátt í mótmælum í aprílmánuði (290 manns) voru beðnir um að nefna þrjár ástæður fyrir þátttöku sinni. Á mynd 1 má sjá algengustu ástæðurnar sem nefndar voru. Fram kemur að algengasta ástæðan er óánægja með stöðu lýðræðisins; flestir sögðust hafa mótmælt vegna þess að þeir telja stjórnmálin spillt og siðferði stjórnmálamanna ábótavant. Þá vildu margir flýta kosningum, enda sú krafa yfirskrift mótmælanna frá upphafi. Ýmis önnur þemu komu fram sem tengjast óánægju með stöðu lýðræðisins. Sumir upplifðu siðferðislega vandlætingu og að það hefði verið borgaraleg skylda þeirra að mótmæla. Fáeinir nefndu það sérstaklega að þeir hefðu mótmælt til að knýja á um nýja stjórnarskrá. Þessar niðurstöður ríma vel við aðra niðurstöðu sem fram kemur í þessari könnun (ekki sýnt á mynd) og sem líka kom fram í könnunum á búsáhaldamótmælinum, sem er að trú á spillingu í stjórnmálum og óánægja með lýðræðið eru afar sterkir forspárþættir mótmælaþátttöku.
Athygli vekur að óánægja með spillingu og siðferðisbresti er oftar nefnd sem ástæða fyrir mótmælaþátttöku heldur en tímabundnu hneykslismálin sem opinberuðust í Panamalekanum. En auðvitað voru þau málefni mótmælendum ofarlega í huga. Framganga þáverandi forsætisráðherra og samráðherra hans var oft nefnd sem ástæða mótmælaþátttöku. Kröfur um afsagnir þessara einstaklinga koma fyrir í mörgum svörum, sérstaklega krafan um afsögn Sigmundar Davíðs en einnig Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal.
Loks gaf hluti mótmælenda til kynna að hann hefði mótmælt vegna stjórnmálaskoðana; þessir einstaklingar vildu öðru fremur koma ríkisstjórninni frá vegna stefnu hennar og málefna. Þetta rímar ágætlega við íslenskar rannsóknir sem sýnt hafa að stjórnmálaskoðanir, sérstaklega fylgni við vinstriflokka, tengjast mótmælaþátttöku hérlendis.
Endurtekin þemu – og kannski einhver ný?
Í kjölfar fjármálahrunsins magnaðist upp á Íslandi tilfinningaþrungin orðræða um spillingu í stjórnmálum sem virkjaði hluta þjóðarinnar til þess að taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum. Vantraustið á stjórnmálum stafaði öðru fremur af þeirri sýn, sem magnaðist upp í Hruninu, að sérhagsmunir hinna efnameiri hefðu náð sterkum tökum á ríkisvaldinu. Nýliðnir atburðir sýna að sú orðræða blundar enn í tilfinningalífi margra Íslendinga. Panamalekinn endurvakti þessar tilfinningar; hann opinberaði hvernig fjármálakerfið, sem ríkisvaldið losaði undan samfélagslegu aðhaldi á árunum fyrir efnahagshrunið, aðstoðar þá efnameiri við að fela eignir fyrir yfirvöldum. Hneykslismálin sem leiddu til mótmælanna í aprílmánuði—að valdamiklir íslenskir stjórnmálamenn hafi reynst nátengdir svona gjörningum—fengu tímabundna athygli, en undirliggjandi drifkraftur mikillar mótmælaþátttöku var, líkt og í Búsáhaldabyltingunni, útbreidd óánægja með stöðu lýðræðisins.
Á undanförnum misserum hefur vantraust almennings á stjórnmálum; sem stafað hefur af útbreiddri sýn á spillingu og siðferðisbrest í stjórnmálum; valdið óvæntum sveiflum í fylgi gamalla og nýrra stjórnmálaflokka, auk þess sem það hefur skapað frjóan jarðveg fyrir fjöldamótmæli. Þróunin er alþjóðleg og ekki bundin við Ísland. En það gerir hana ekkert minna varhugaverða. Fjármálakreppan opinberaði hvernig frelsun fjármagnsaflanna áratugina á undan hafði veikt samfélagslegt vald yfir veigamiklum sviðum þjóðlífsins. Panamalekinn gaf almenningi innsýn í afleiðingarnar og hefur líklega aukið á vantraustið. Hættan til lengri tíma er sú að borgararnir missi enn frekar trúnna á að stofnanir stjórnmálanna séu farvegur átaka um þjóðfélagsgerðina. Þá getur skapast lýðræðiskreppa og stjórnmálin færast í auknum mæli út á torg og stræti, sérstaklega þegar kreppir að eða þegar áföll eiga sér stað.
Snemmbúnar kosningar í haust bjóða upp á tækifæri fyrir stjórnmálin að endurvekja traust. Ástandið í þjóðfélaginu nú felur í sér sjaldgæf sóknarfæri fyrir framsækin stjórnmálaöfl; stór hluti borgaranna er móttækilegur fyrir trúverðugum skilaboðum um lýðræðislegar umbætur. Eigi umbætur að endurvekja traust almennings á stjórnmálum til lengri tíma hljóta þær að fela í sér ekki aðeins aðgerðir gegn spillingu og siðferðisbrestum heldur líka aðgerðir sem auka samfélagslegt aðhald á fjármagnsöflunum. Fjármálakerfið í núverandi mynd rímar bersýnilega illa við réttlætis- og lýðræðiskennd margra Íslendinga. En eins og dæmin sanna austanhafs og vestan um þessar mundir skapa ólga, óvissa og vantraust líka sóknarfæri fyrir stjórnmálaöfl af því taginu sem ala á ótta og leitast við að sameina fólk með einföldum skilaboðum um „okkur“ og „hina“. Þá er stutt í hatur og öfgar og ólíklegt að lýðræðisumbætur verði ofarlega á dagskrá. Að þessu leyti stendur Ísland á tímamótum í haust. Það mun reyna á lýðræðiskennd stjórnmálamanna og kjósenda.
Höfundur er er prófessor í félagsfræði við HÍ.