Ljóst er að fyrir liggur viðvarandi og djúpstætt ósætti í samfélaginu um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Auðlindin, sem er þjóðarinnar, skilar ekki nægum verðmætum í sameiginlega sjóði og örfáar fjölskyldur efnast gríðarlega og hafa gert um langt skeið. Í raun má segja að enginn sé sáttur við kerfið nema þeir sem hagnast á því og svo þeir stjórnmálaflokkar sem hafa gert sér far um að verja þau forréttindi, sem eru núverandi stjórnarflokkar.
Það er stórt og aðkallandi verkefni að skapa samfélagssáttmála um slíka lykilgrein. Í raun dugar ekkert minna en að stefna að þjóðarsátt um stjórnun auðlindarinnar og ráðstöfun þess fjár sem nýtingin skilar.
Það er gömul saga og ný að fólk telji að unnt sé að breyta kerfinu með einu pennastriki, með einu töfraorði, núna er þetta orð uppboðsleið. Raunin er sú að uppboðsleið er eins og nafnið gefur til kynni aðferð en ekki markmið.
Í umræðunni allri er mikilvægast að missa ekki sjónar á markmiðunum. Hver ættu að vera markmið okkar með góðu fiskveðistjórnunarkerfi? Þrjú markmið eru að mati okkar vinstri grænna mikilvægust, þau skipta öll máli og verða ekki greind í sundur.
Í fyrsta lagi þarf arðurinn af auðlindinni að skila sér til þjóðarinnar. Í öðru lagi þarf að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar. Í þriðja lagi þarf að tryggja að byggðasjónarmiðin sé ekki fyrir borð borinn.
Engin ein aðferð tryggir að öllum þessum markmiðum sé náð. Uppboðsleiðin ein og sér horfir til markmiðsins um arðinn en síður á aðra þætti. Blönduð leið, þar sem uppboðsleiðin er einn þáttur er að líkindum farsælasta leiðin.
Í því viðfangsefni sem framundan er verður að eiga samráð við þjóðina, kalla fleiri að borðinu. Þjóðfundur um fyrirkomulag fiskveiðstjórnunarkerfisins gæti verið fyrsta skrefið í áttina að mikilvægri þjóðarsátt í þessum efnum. Þjóðin verður að eiga aðkomu að samtalinu. Viðfangsefni af þessu tagi verður ekki leyst nema með skýrri aðkomu almennings.
Höfundur er þingflokksformaður VG.