Á dögunum vakti það athygli að Færeyingar seldu kvóta í kolmunna, makríl, síld og þorski á uppboði sem skilaði margfalt meira til ríkissjóðs þeirra en veiðileyfagjöld á Íslandi eru að skila hér fyrir veiðar á sömu tegundum. Eingöngu færeysk fyrirtæki fengu að bjóða í kvótann og skilyrðið var að aflanum væri landað í Færeyjum.
Fljótlega fór að bera á gagnrýni á þennan gjörning. Morgunblaðið, í eigu eins stærsta kvótaeiganda landsins, dró fram formann helsta stjórnarandstöðuflokksins í Færeyjum, sem lýsti óánægju sinni með fyrirkomulagið. Þá var í Fiskifréttum viðtal við forystumenn stéttarfélaga sjómanna, sem höfðu efasemdir um uppboðsleiðina.
Ein helsta gagnrýnin á hugmyndir um uppboðsleið við úthlutun veiðiheimilda hefur í gegnum tíðina verið sú að hún leiði til þess að fáir og stórir aðilar kaupi upp allan kvótann. Sú varð reyndar raunin í Færeyjum – og þar með töldu talsmenn núverandi úthlutunarkerfis sig hafa fengið þennan ótta staðfestan. En skoðum málið nánar. Þorskkvótinn sem um ræðir er í Barentshafi og það er ekki á færi nema stærri togara að sækja hann þangað. Uppsjávarveiðar á síld og makríl í einhverju magni eru líka aðeins á færi stórra sérútbúinna skipa. Það var sem sé ekki verðið sem stóð í vegi fyrir að minni útgerðir gætu tekið þátt – þær eiga einfaldlega ekki skip sem geta veitt þennan tiltekna kvóta.
Það hefur líka oft komið fram í umræðunni á Íslandi að auðvelt er að útfæra uppboð þannig að málamyndagjald sé greitt í upphafi en restin síðan tekin við sölu á markaði, sem gerir minni útgerðum kleift að taka þátt. Þar að auki eru þeir sem greiða hæst verð fyrir kvóta á Íslandi í dag lítil fyrirtæki sem gera að hluta til eða að öllu leyti út á leigukvóta. Verð á leigukvóta hefur undanfarið verið vel yfir 200 krónur fyrir þorskkílóið og ljóst að slík fyrirtæki tækju fegins hendi því verði sem greitt var fyrir þorskkvótann í Færeyjum, á milli 60 og 70 krónur kílóið.
Ótti sjómanna er sumpart skiljanlegur. Auðvitað óttast þeir að útgerðarmenn reyni að sækja aukinn kostnað til sjómanna og að breytingin muni valda uppnámi og ótryggara vinnuumhverfi. Krafa þeirra hlýtur að vera sú að farið verði varlega og kerfinu ekki kollvarpað í einni svipan. En það þarf líka að vera ljóst að það fé sem ríkissjóður er að sækja með uppboðsleiðinni er ekki þeirra laun. Ef rétt er á málum haldið verður auðlindarentan tekin af óeðlilegum ofurhagnaði fyrirtækjanna í dag sem þau hafa í skjóli aðstöðu sinnar, auk þess sem með tímanum mun létta af greininni hinum gríðarlega fjármagnskostnaði sem fylgir kvótakaupum í dag. Það mun svo gera fyrirtækjunum kleyft að bjóða hærri verð í veiðiheimildir í framtíðinni.
Höfundur situr í stjórn Reykjavíkurfélags Pírata og skipar 7. sæti á framboðslista Pírata í Reykjavík norður.