Árið 2016 eru að verða vatnaskil í rekstri Hafnarfjarðarbæjar. Stærsta fréttin er eflaust sú að bærinn er að greiða niður lán án þess að stofna til nýrra, í fyrsta skipti síðan að minnsta kosti 2002. Það var tími til kominn.
Á yfirstandandi ári var staðan orðin sú að fjármagnsgjöld (kostnaður vegna lána) voru nánast á pari við öll launagjöld í leikskólum bæjarins, en hvor stærðin um sig losar tvo milljarða.
Ein af stærstu áskorunum sveitarfélaga næstu misserin er að lækka innritunaraldur barna í leikskóla og leggja þannig sitt af mörkum til að brúa bilið milli foreldraorlofs og leikskólabyrjunar. Það er því mikið fagnaðarefni að okkur í Hafnarfirði sé að takast að vinda ofan af skuldabyrðinni, losa um fé til uppbyggingar - til að fjárfesta í uppvextinum frekar en vöxtum til banka.
Þessi árangur er til kominn vegna markvissrar endurskoðunar á fjárhag bæjarins. Gerð var heildstæð óháð úttekt á rekstrinum og tillögur úr þeirri vinnu nýttar til að hagræða, undir þeim formerkjum að viðhalda eða auka þjónustu til bæjarbúa. Jafnframt hefur markviss endurnýjun átt sér stað í innkaupum með gerð útboða á öllum sviðum bæjarins. Sú endurskoðun var löngu tímabær og hefur létt talsvert á útgjöldum.
Byggjum upp framtíðina
Hafnarfjörður hefur undanfarin ár staðið höllum fæti í samanburði á kostnaði íbúa vegna þjónustu, sérlega hvað ungar fjölskyldur varðar. Úrbætur á þeirri stöðu eru í forgangi, enda höfum við meðal annars haldið dvalargjöldum í leikskólum bæjarins óbreyttum í þrjú ár í röð í stað þess að láta þau fylgja verðlagi, sem leiðir af sér raunlækkun til notenda. Styrkir vegna frístundastarfs barna hafa verið hækkaðir og efri aldursmörk þeirra færð úr 16 upp í 18 ár, auk þess sem núna má nýta styrki til frístundaiðkunar utan bæjarmarkanna sem áður var óheimilt. Þá hafa styrkir til fjölskyldna vegna dagforeldragjalda verið hækkaðir og lækkun innritunaraldurs í leikskóla innleidd í skrefum, meðal annars með því að innrita tvisvar á ári.
Þetta hefur okkur tekist að gera þrátt fyrir þrönga stöðu og markvissan viðsnúning á skuldabyrði bæjarins. Hálfsársuppgjör bæjarsjóðs 2016 sýnir glögglega að okkur er að takast að styrkja grunninn með afgerandi hætti. Hagstæð ytri áhrif, svo sem útsvarstekjur umfram áætlun og lægri vaxtagjöld verða síðan til að styrkja stöðuna enn frekar og því ber að fagna.
Hafnarfjörður á nýjan leikskóla skuldlaust
Að lokum er mér ljúft og skylt að vekja athygli á því að nýjasti leikskóli bæjarins, Bjarkalundur í Vallahverfinu, var byggður fyrir eigið fé og er því skuldlaus með öllu. Það er ekki svo lítil frétt þegar Hafnarfjörður er annars vegar. Það var einstaklega góð tilfinning á opnunardaginn í sumar að skoða þennan fallega skóla vitandi að honum fylgja ekki íþyngjandi bókhaldsliðir vegna lána, heldur eingöngu gleðileg fjárfesting í framtíð bæjarins.
Það er björt framtíð í því.