Áætlun eignarhaldsfélagsins Kaupþings um að greiða starfsfólki sínu 1,5 milljarð króna í bónusgreiðslur fyrir að selja eignir félagsins hafa skiljanlega vakið mikla athygli. BSRB gagnrýndi áformin harðlega í yfirlýsingu í gær, sagði þau óásættanleg og ekki eiga við í íslensku samfélagi og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins hefur bent á að upphæðin nemi nánast öllum launum allra 200 starfsmanna spítalans á einu ári. Kaupþing hefur ekki viljað tjá sig um málið.
Þetta er allt saman mjög réttmæt gagnrýni. Það er óskiljanlegt af hverju starfsfólk eignaumsýslufélags eigi að fá allt að 100 milljónir króna hvert fyrir það eitt að selja eignir og vera um leið að vinna vinnuna sína. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hitti naglann ágætlega á höfuðið þegar hann sagði við RÚV í síðustu viku að það væri ekkert að því að menn hagnist í samfélaginu okkar ef þeir hafi tekið áhættu eða lagt fjármagn sitt undir. „En þegar menn taka enga áhættu, eru bara að mæta í vinnuna, og eru að semja við jafnfurðuleg fyrirbæri og þessar skeljar af gömlu bönkunum eru í einhverju svona lokuðu mengi, þá verður allt málið að skoðast í öðru ljósi. Þess vegna kemur strax upp í hugann orðið „sjálftaka“ þegar maður sér svona niðurstöðu.“
Starfsmenn Kaupþings eru ekki að taka áhættu í störfum sínum. Þeir eru ekki að leggja undir eigið fé í viðskiptum. Þeir eru bara að mæta í vinnuna og selja eignir sem komu til félagsins í kjölfar nauðasamninga. Af hverju ættu þeir að fá bónusgreiðslur fyrir þetta?