Undanfarið hefur eitthvað verið á milli tanna á fólki og það hafa ekki verið matarleifar. Ítrekað eru að birtast greinar um Pírata: Össur talaði um prófkjör Pírata sem „bömmer“, Jón Gunnarsson skilgreindi okkur sem „ólýðræðisleg“ og Kolbrún Bergþórsdóttir hjá DV líkir prófkjörinu við fermingarveislu, sem ég sé reyndar ekki sem neitt neikvætt þar sem fermingarveislur er yfirleitt vettvangur góðs samneytis.
Prófkjör Pírata hafa verið sérstaklega vinsæl í frétta- og samfélagsmiðlum undanfarið, ekki af því að þar var verið að velja þá frábæru einstaklinga sem munu berjast fyrir sæti á þingi, heldur hvernig það var gert, hvaða aðferðir voru notaðar, vandamál sem komu upp og svo fram eftir götum.
Það er þó svo að Píratar eru og munu vonandi alltaf vera öðruvísi flokkur en allir hinir flokkarnir.
Það að fáir hafi kosið í Reykjavíkurkjördæmi eða nokkru öðru, er ekki merki um ólýðræði, það er á engan hátt bömmer og umræður um lög og endurtalningu hafa ekki verið til einskis heldur ýtt undir áframhaldandi betrumbætur á innra starfi flokksins.
En víkjum okkur aðeins frá Pírötum og horfum á hina flokkana.
Gömlu flokkarnir standa fyrir ákveðin hugmyndafræðileg gildi og hafa gert í langan tíma. Þeir búa að mikilli og langri sögu. Með þeim er mikil hollusta þar sem börn fæðast jafnvel inn í flokkana, kjósa þá líkt og foreldrar gerðu á undan þeim og afar og ömmur þar á undan.
Þeir búa við blindu óvéfengjanlegu trausti… næstum eins og foreldri hefur á barni sínu; blint auga fyrir mistökum og óbilandi trúa á getu og hæfni.
En þar er snurðan, hið óvéfengjanlega traust.
Það er þannig í sögu stjórnmála að gagngerar stjórnmálalegar breytingar eiga sér aðeins stað fyrir tilstilli samfélagslegra breytinga og áhrifa.
Það eru stórtækar breytingar í samfélaginu og köll eftir breyttum áherslum sem setja stórt spurningarmerki við hið óvéfengjanlega traust sem eitt sinn ríkti.
Píratar hafa orðið svar við þeim efa sem sækir að fólki. Ljós í myrkinu, möguleikinn fyrir breytingum.
Píratar eru ekki flokkur sem byggir á gömlum hefðum og venjum, hann mun seint standa fyrir ákveðna rótgróna stjórnmálalega hugmyndafræði. Píratapartýið er flæðandi flokkur sem breytist og aðlagast að þeim þörfum sem eru í þjóðfélaginu.
Hann er í rödd margra en heimili fárra.
Píratar eru flokkur sem byggir fylgi sitt á því að gera rétt fyrir fólkið, rétt fyrir landið, rétt fyrir þá sem kosningarréttinn hafa. Stöðnun eða ef rangt skref er tekið í þágu fjöldans mun enduróma í hverfandi fylgi og áhuga.
Það er mikilvægasti kjarni Pírata, eiginleikinn til að breytast með þjóðfélaginu, aðlaga sig að breyttum háttum og hugmyndum, vinna út frá þeim gögnum sem liggja fyrir að hverju sinni. Með öðrum orðum: vel upplýstar ákvarðanir sem er ætlað að betrumbæta samfélagið.
Það er því ekki hægt að segja það of oft, að svo lengi sem flokkurinn breytist og mætir þörfum samfélagsins þá verður fólk sem kýs hann, því innan hans er fólk sem berst fyrir þeim breytingum sem kjósendur leita eftir, svar þegar annars er ekkert svar er að finna.
En um leið og það verður stöðnun og um leið og breytingar sjást ekki lengur og flokkurinn fellur í sama far og hinir flokkarnir í íslensku stjórnmálalandslagi þá mun hann viðra upp og deyja.
Píratar eru flokkur breytinga, hann er breytingin. Það sem skiptir þó mestu máli er að Píratar, og fólkið innan flokksins mun berjast fyrir réttindum kjósenda, leitast við að laga og bæta samfélagið, halda áfram að þróast og breytast því íhaldið og stöðnun er banamein Pírata.
Skip eru kannski örugg í höfn en það er ekki tilgangur þeirra og Píratar munum sigla áfram í gegnum þann storm sem nú geisar í íslenskum stjórnmálum og íslensku þjóðlífi, þar sem ungir geta ekki eignast heimili og ellilífeyrisþegar og öryrkjar geta varla haldið í sín.
Möguleikinn á breytingum er handan við hornið, tækifærið er núna… kannski við ættum ekki að láta það tækifæri fram hjá okkur fara.
Höfundur er Mannfræðingur, Menntunarfræðingur og Pírati.