Þegar Olof Palme steig á stokk í sumarfríinu sínu á Gotlandi árið 1967 og fór að tala um pólitík - þvert á loforð við konu sína um að gera það ekki, gat honum ekki hugnast þau áhrif sem þessi fundur átti eftir að hafa í för með sér. Hann endurtók síðan leikinn og á endanum fór fólk að flykkjast til Gotlands til að ræða saman á afslappaðan máta um samfélagsmál. Hann kom sér fyrir í miðjum bænum á grasfleti sem nefnist Almedalen og hátíðin sem spratt uppúr þessu framtaki hans nefnist Almedalsveckan - enda taka Svíar sér viku í hátíðina.
Bæjaryfirvöld á Gotlandi hafa síðan tekið þessa hátíð að sér og í dag er hún stærsti pólitíski viðburðurinn í Svíþjóð sem laðar að sér þúsundir manna - og það sem meira er, fólk tekur viku af sumarfríinu sínu til að mæta.
Almedalsveckan er fyrirmynd Fundar Fólksins á Íslandi en við vorum síðasta norræna þjóðin til að taka upp þetta form og umræðuhefð. Hátíðin verður um næstu helgi og verða tjaldbúðir reistar á grasfllötinni fyrir framan Norræna húsið til að koma öllum þeim aðilum fyrir sem vilja leggja þjóðfélaginu lið með umræðum um þau mál sem á þeim brenna og mögulegar lausnir á þeim.
Það er af mörgu að taka en hátíðin hefur tvöfaldast í umfangi milli ára en umræður verða í öllum kimum Norræna hússins auk tjaldbúðanna. Á hátíðinni eru skráðir um 100 viðburðir og verður m.a. rætt um þá byltingu sem orðin er á því hvernig nálgast má persónuupplýsingar á netinu undir yfirskriftinni: Er verið að selja mig á netinu? Kassettugjaldið svokallaða - um framtíð höfundaréttar verður einnig á dagskrá, þjóðernishyggja og popúlismi á Norðurlöndunum, menntun í lýðræði, samspil lista og ferðaþjónustu, neytendavernd á fjármálamarkaði, nýja tíma í fjölmiðlum, sykurskattinn, þriðju leiðina í velferð, fátæktarklám, stoltgöngu fatlaðra, loftslagsmál og um það hvernig í fjandanum ungt og efnaminna fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið.
Þátttakendur í Fundi Fólksins eru rúmlega 80 að þessu sinni eða tvöfalt fleiri frá því í fyrra þegar hátíðin var fyrst haldin. Við erum að byggja upp nýja umræðuhefð á Íslandi þar sem ráðamenn þjóðarinnar hitta almenning og ræða saman af heiðarleika um þau mál sem brenna á þjóðinni. Það má búast við líflegum umræðum á Fundi Fólksins enda hátíðin í upptakti kosninga og fjöldi stjórnmálamanna hafa boðað þátttöku sína. Í stjórnmálabúðum hátíðarinnar verða pallborðsumræður með forystumönnum flokkanna ásamt því að samtöl blaðamanna við stjórnmálamenn verða á hálftíma fresti.
Það er Almannaheill - samtök þriðja geirans sem er framkvæmdaaðili hátíðarinnar í samstarfi við Velferðaráðuneytið, Reykjavíkurborg og Norræna húsið. Hátíðin er öllum opin og aðgangur er ókeypis.
Dagskrá hátíðarinnar má finna hér.
Vertu með og segðu þína skoðun!
Höfundur er verkefnastjóri Fundar Fólksins.