Eins og greint var frá í gær, þá mun Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla, sem framleiðir spurningaleikinn QuizUp, loka skrifstofu sinni á Íslandi. Öllu starfsfólki, 36 manns, var sagt upp í gær.
NBC, sem ætlaði að framleiða spurningaþætti undir nafninu QuizUp, hefur hætt við framleiðsluna og rekstrarforsendur brustu til frekari fjármögnunar og þróunar á fyrirtækinu hér á landi. Vonir höfðu staðið til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu þáttarins.
Plain Vanilla reis hátt, náði í meira fimm milljarða frá erlendum fjárfestum, og höfðu stofnendur, með Þorstein Baldur Friðriksson stofnanda í broddi fylkingar, vonir um heimsyfirráð.
Óhætt er að segja að þetta hafi ekki gengið eftir, og var fallið svipað snöggt og risið í upphafi. Svolítið eins og reyndin hefur verið með fjölmörg vinsæl öpp.
Vafalítið munu áhrifin af þeim mikla jákvæða krafti sem fylgdi velgengni Plain Vanilla á fyrstu árum, vara lengi í sprotasamfélaginu íslenska. Stór hópur ungs fólks fékk tækifæri til að starfa í alþjóðlegu umhverfi og þróa áfram tæknikunnáttu sína við góðar aðstæður.
Fyrir lítið samfélag eins og Ísland er þetta gulls í gildi.