Óhætt er að fullyrða að frumvarp Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sé ekki eingöngu umdeilt meðal námsmanna og háskólafólks, heldur er alvarlega gagnrýni að finna víðar.
Sú gagnrýni hefur m.a. komið skýrt fram á fundum í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis þegar fjallað hefur verið um frumvarpið. Í stuttu máli er það svo að meirihluti umsagnaraðila um málið hafa miklar athugasemdir við það.
Í umsögn ríkisskattstjóra, en fulltrúi hans kom á fund nefndarinnar, koma fram upplýsingar sem afar brýnt er að vekja athygli á en hann telur að allsherjar – og mennamálanefnd þurfi að skoða alvarlega hversu víðtæka heimild LÍN hefur til að afla sér upplýsinga um einstaklinga.
Í núgildandi lögum um Lánasjóðinn hefur það ítrekað komið fyrir að foreldar, sem voru ábyrgðarmenn barna sinna, lentu í því að innheimtuaðilar fyrir hönd Lánasjóðsins kölluðu eftir skattframtölum þeirra með vísan til þess að innheimta á námskuldum félli undir framkvæmd laganna. Þessu er haldið eftir í frumvarpi Illuga um breytingar á LÍN og þýðir í raun að í frumvarpinu eru allt of víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar um fjárhagslega hagi lánþega.
Ríkisskattstjóri leggur til að í frumvarpinu verði ákvæðið þrengt þannig að embættið þurfi ekki að upplýsa annað en það sem varðar lántaka sjálfan eða sem snýr beint að veitingu námsaðstoðar, en ekki önnur atriði sem eru lántökunni óviðkomandi. Þetta þarf að byggja á upplýstu samþykki umsækjanda en ekki á að hafa allt stjórnkerfið undir í heimildinni til upplýsingaöflunar um einstaklinginn. Það er er óviðkomandi því að hann vill einfaldlega taka námslán sér til framfærslu á meðan námi stendur.
Þetta er eitthvað sem Persónuvernd þyrfti að kafa mun betur ofan í að mínu mati.
Annað sem kom fram hjá fulltrúa ríkisskattstjóra varðandi námsstyrkinn, sem er tekjuskattskyldur en ekki staðgreiðsluskyldur, að um slíka styrki gildi lög og reglugerðir sem þyrfti að breyta. Ekkert liggur fyrir um það hvort og hvaða kostnað námsmenn mega draga frá til að mæta tekjuskattsskyldunni eins og gildir um aðra styrki. Styrkurinn er sem sagt reiknaður nemendum til tekna og bætist við þær tekjur sem námsmenn vinna sér inn og skerðir því lánafyrirgreiðsluna hjá LÍN. Þetta mismunar fólki eftir efnahagslegri stöðu þess og er því á skjön við hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Margt annað væri hægt að nefna en þessi tvö dæmi undirstrika að málið allt er vanhugsað á svo marga vegu.
Höfundur er þingmaður VG og nefndarmaður í allsherjar-og menntamálanefnd.