Reuters fréttaveitan greindi frá því í gær, að kannanir sýndu nú meiri stuðning við Donald J. Trump, frambjóðanda Repúblikana, heldur en fyrir nokkrum vikum. Ekki eru þó allir sammála um hvort það sé hægt að túlka kannanir þannig að aukinn byr sé nú í seglum Trump. Hann hefur mælst með um 40 prósent fylgi að undanförnu.
Miðað við hvað Trump er að segja, þá verður það að teljast með nokkrum ólíkindum. Í ræðu sem Trump hélt í Phoenix 31. ágúst síðastliðinn þá gerði hann innflytjendamál sérstaklega að umtalsefni, og sýndi þar á sömu spil og hann hefur haft á lofti alla kosningabaráttuna. Þar er talað fyrir kynþáttafordómum og aðskilnaði með veggjum.
Hugmyndirnar eru víðsfjarri hægri pólitík, þar sem frelsi einstaklinga er sett á oddinn.
Hversu lengi geta Repúblikanar látið bjóða sér þessa fordómafullu kosningabaráttu? Þegar stórt er spurt, er fátt um svör önnur en þau, að Trump virðist frekar vera að bæta í fordómafullan boðskap, heldur en hitt.