Ég er eins ungur og nokkur getur verið sem horfir samt sem áður aftur til grunnskólaáranna sinna með fjarlægum nostalgíu glampa í augunum. En þó það séu ekki nema rétt rúm 10 ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla, finnst mér samt eins og menntakerfið hafi verið ótrúlega gamaldags þegar ég var að klifra í gegnum það. Þegar minn árgangur komst í unglingadeild (ég er allavega nógu ungur til að kalla það ekki gaggó) vorum við sorteruð í „hraðferð“ og „hægferð“, eftir því hvernig okkur, 13 ára krökkunum, hafði gengið í bóknámi misserið á undan. Tossabekkur og proffabekkur. Flott til að bæta stemminguna. (Ég býst við að hugtakið einstaklingsmiðað nám hafi verið fundið upp einhvern tímann á síðustu 10 árum.)
Þremur árum seinna útskrifaðist maður úr grunnskólanum og þurfti að velja framhaldsnám. Auðvitað stóðu fjölmargir skólar til boða, en samfélagið og viðhorfsstraumarnir einfölduðu valið mjög mikið. Ef þú varst með mjög góða einkunn (bara einkunnir úr bóknámsfögum töldust með), þá skráðir þú þig á náttúrufræðibraut í einhverjum bóknámsframhaldsskóla og helgaðir næstu 4 árum ævi þinnar í að reikna stærðfræði. Því öll viljum við jú verða verkfræðingar ekki satt? Ef þú varst með svona rétt yfir meðallagi einkunnir, þá fórst þú á mála- eða félagsfræðibraut í einhverjum bóknámsframhaldsskólanum. En ef svo hræðilega vildi til að þú brilleraðir ekki á hinum alræmdu samræmdu prófum 10. bekkjar, þá neyddist þú til að fara í iðnskólann! Ég, hinn klassíski nörd, tilheyrði fyrsta hópnum. Og skráði mig, eðli málsins samkvæmt, á náttúrufræðibraut í bóknámsskóla.
Spólum 10 ár fram í tímann. Ég er að paufast í að ná mér í mína 2. háskólagráðu. Bý á stúdentagörðunum í íbúð sem er svo lítil að baðherbergið er 1/3 af íbúðinni. Sumir hverjir samnemendur mínir úr hægferðinni hins vegar, sem neyddust til að skrá sig í verknám, hafa núna starfað sem rafvirkjar, kokkar og píparar í nokkur ár og eru ekki bara búnir að kaupa sína fyrstu kjallaraíbúð sem virðast vera örlög alls ungs fólks að byrja búskap sinn í, heldur búnir að stækka við sig og fluttir inn í sína aðra íbúð.
Afhverju í ósköpunum samfélagið leit niður á iðnnám þegar ég var að útskrifast úr grunnskóla veit ég ekki, en ég get bara vonað að íslenskt samfélag hafi látið af þeirri vitleysu á þessum rúmu 10 árum. Síðan hvenær var það eitthvað ómerkilegra að vera laghentur og listrænn en að vera góður í stærðfræði? Eina IKEA húsgagnið sem ég hef skrúfað saman á ævinni liðaðist í sundur með skelfilegum afleiðingum fyrir geisladiskasafnið mitt.
Getum við sem þjóðfélag plís hætt að búa til einhverja fáránlega huglæga stéttaskiptingu milli fólks og farið að meta hæfileika allra á jafningjagrundvelli? Hvort sem það er hæfileikinn að þekkja ráðherraskipan Nýsköpunarstjórnarinnar eða leggja pípur í húsin okkar. Þið megið giska hvort ég kann.
Höfundur er stjórnmálafræðingur og sagnfræðinemi, varaformaður Ungra jafnaðarmanna og gefur kost á sér í 4.-6. sæti í forvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.