Mikið hefur borið á því að íbúum landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins sé stillt upp sem tveimur pólum og fleygurinn virðst sífellt rista dýpra. Annars vegar höfum við 101 aumingjana með latte-inn sinn sem eyða helgunum á listasöfnum og hafa aldrei migið í saltan sjó. Hins vegar er það uppáhellingar svolgrandi landsbyggðarlýðurinn sem borðar kjötbúðing á mánudögum og hefur ekkert skynbragð á listir og menningu. Þannig er gefið til kynna að menning og listir eigi ekki erindi á landsbyggðinni, en er það tilfellið?
Borgarbyggð, heimabær minn, er gott dæmi um að menning getur vel blómstrað úti á landi. Það sjáum við það til dæmis í þeim fjölmörgu kórum og leikfélögum sem starfrækt eru í sveitarfélaginu, í frumkvöðlasetrinu Hugheimum, söfnum í sveitarfélaginu, í Vitbrigðum – samtökum fólks í skapandi greinum á Vesturlandi og svo var listahátíðin Plan-B haldin í fyrsta sinn í Borgarnesi á þessu ári sem undirrituð kom að því að skipuleggja.
Það hefur margsýnt sig að skapandi einstaklingar geta breytt hrörlegustu hverfum í blómleg svæði sem eru iðandi af mannlífi og sköpunarkrafti. Þetta hafa borgaryfirvöld um allan heim verið að átta sig á og veitt listamönnum vinnuaðstöðu á svæðum sem þarfnast andlitslyftingar. Hefur þetta verið gert, t.d. í Reykjavík, með verkefninu Torg í biðstöðu, þar sem skapandi borgarar taka að sér að hlúa að vannýttum svæðum tímabundið. Seyðisfjörður er annað dæmi um hvernig bær út á landi hefur tekið stakkaskiptum með frumkvæði listamanna og íbúa. Færum okkur út fyrir kassann og verum opin fyrir nýjum hugmyndum!
Það er nauðsynlegt að styðja vel við bak heimamanna sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta og lífga upp á heimabyggðirnar sínar. Við eigum mikinn auð í skapandi og dugmiklu fólki og með auknum stuðningi og betri þjónustu blómstrar menning og nýsköpun á landsbyggðinni.
Höfundur er meistaranemi í listfræði og frambjóðandi í flokksvali Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.