Í dag, 8.september er alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfunar. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er „Add life to years“ eða „Bættu lífi við árin“ og sjónum beint að sjúkraþjálfun aldraðra. Lífslíkur íslendinga eru þær bestu sem þekkjast á svæði Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu og eftir 15 ár munu íslendingar 67 ára og eldri vera um 20% af íslensku þjóðinni. Með þessari fjölgun má búast við aukningu á fjölda þeirra aldraðra sem búa við heilsubrest eða fötlun af einhverju tagi. Því er ljóst að huga þarf að forvörnum til að viðhalda eða auka færni og efla getu aldraðra til sjálfshjálpar. Miklu máli skiptir að aldraðir stundi reglulega hreyfingu þar sem 50% minni líkur eru á færniskerðingu hjá þeim sem hreyfa sig reglulega og dánartíðni hjá þeim hópi er 40% lægri en hjá þeim sem ekki stunda reglulega hreyfingu. Á síðasta ári birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin drög að nýrri reglugerð um lýðheilsuaðgerðir þar sem staðalímyndinni um aldraða sem hruma og öðrum háða er hafnað. Það að fólk hægi á sér og sé hættara við byltum sé ekki eðlilegur þáttur í öldrunarferlinu. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að mikill ávinningur er af þjálfun, óháð aldri og að þeir sem eldri og hrumari eru hagnist mest af henni. Það er því ekki of seint að hefja þjálfun á efri árum.
Starfsvettvangur sjúkraþjálfara sem starfa með öldruðum er mjög fjölbreyttur. Þeir starfa á hjúkrunar- og dvaralarheimilum, í heimahúsum, á sjúkraþjálfunarstofum og á sjúkrahúsum svo eitthvað sé nefnt. Sjúkraþjálfarar starfa ýmist með einstaklingnum í einstaklingsmeðferð eða stýra sérhæfðri hópþjálfun. Þeir meta einnig þörf fyrir hjálpartæki svo fækka megi hindrunum í daglegu lífi hins aldraða og koma að stefnumótun í málefnum aldraðra svo eitthvað sé nefnt. Sjúkraþjálfarar gegna veigamiklu hlutverki svo hægt sé að uppfylla stefnu íslenskra stjórnvalda sem miðar að því að aldraðir geti sem lengst búið í sjálfstæðri búsetu í heimahúsum. Sjúkraþjálfarar stuðla að reglulegri hreyfingu aldraðra ásamt því að viðhalda og/eða bæta færni, virkni og sjálfstæði hins aldraða. Með persónumiðaðri nálgun þar sem sjúkraþjálfarinn leggur mat á færni hins aldraða í daglegu lífi og vinnur með honum að settum markmiðum stuðlar sjúkraþjálfun að auknum lífsgæðum hins aldraða. Sem dæmi má nefna að þjálfun hjá sjúkraþjálfara stuðlar að fækkun á byltum hjá öldruðum, stuðlar að því að aldraðir nái aftur athafnagetu eftir heilsubrest og fækkar sjúkrahússinnlögnum og hefur þar að leiðandi fjárhagslegan ávinning í för með sér fyrir íslenskt þjóðfélag.
Félag sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu (FSÖ) var stofnað fyrir 20 árum síðan með það að markmiði að stuðla að fræðslu og forvarnarstarfi í þágu aldraðra, stuðla að framhaldsmenntun, símenntun og rannsóknum í sjúkraþjálfun aldraðra og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. FSÖ hefur staðið að gerð kennsluefnis, fræðslubæklinga og þýðingum prófa fyrir mælitækjabanka sjúkraþjálfara. Félagið, sem og einstakir félagsmenn, hafa unnið ötullega að forvörnum vegna beinþynningar, fræðslu um mikilvægi hreyfingar fyrir aldraða, víðtækri kynningu og fræðslu vegna heilabilunar, byltuvörnum og þjálfun fólks með svima og skert jafnvægi sem og lýðheilsuverkefnum eins og Brúkum bekki.
Félag sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu óskar sjúkraþjálfurum á Íslandi innilega til hamingju með daginn!
Höfundur er formaður Félags sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu.